Brút er búinn að festa sig í sessi sem helsti sjávarréttarstaður miðborgarinnar. Þegar staðurinn opnaði á sínum tíma vakti athygli að skötubarð og ufsi voru á matseðlinum.
Fyrrnefnda fiskinn hafa Íslendingar ekki viljað borða óskemmdan þó svo að hann sjáist stundum á vönduðum veitingahúsum erlendis. Ufsinn hefur einnig þótt óæti hér á landi – að minnsta kosti meðal þeirra sem eru sprottnir úr sjávarútveginum – og hefur sú staðreynd að rokkbræðurnir Mikki og Danny bera nafn hans á enska tungu að eftirnafni.
Sá sem þetta skrifar hefur ekki smakkað ufsann en mælir sérstaklega með skötubarðinu sem er ljúffengt. Engin ástæða er til að álykta að hið sama gildi ekki um ufsann.
Þá er sólkolinn, skötuselurinn og lúðan alveg hreint framúrskarandi. Enda eru þetta meðal bestu matfiska sem finnast við Íslandsstrendur. Valið á hráefninu endurspeglar metnað þeirra Brútmanna til að reiða fram góðan mat og á sama tíma festast ekki í því fari sem svo margir veitingastaðir í Reykjavík hafa verið fastir í allt frá því að ferðamannaiðnaðurinn sprakk út.
Það kom ekki neinum þeim á óvart sem sótt hefur Brút frá því að staðurinn opnaði þegar Michelin mælti með staðnum á dögunum. Það er fyllilega verðskuldað. Þrátt fyrir metnaðarfulla matreiðslu er andrúmsloftið á staðnum afslappað og þægilegt. Að öllu óbreyttu verður Brút helsta varnarþing þeirra sem una sjávarfangi til frambúðar.
Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudaginn, 28. júlí 2023.