Rétt við ráðhúsið í Reykjanesbæ er að finna Pulsuvagninn. Segja má að þarna kallist á helstu valdastofnanir Suðurnesja og þarna er einmitt lystigarðurinn í Keflavík. Þarna hefur myndast miðstöð valds, matargerðar og undursamlegrar náttúrufegurðar án hliðstæðu. Það er einna helst svæðið kringum þinghúsið í Washington D.C sem stenst samanburð.
Frægasti réttur Pulsuvagnsins er Villa-borgarinn sem dregur nafn sitt af einum af eigendum staðarins. Hamborgarinn er steiktur og látinn liggja í legi og borinn fram með því sem er sett ofan á pulsu með öllu auk rauðkáls og súrra gúrka.
Segja má með sanni að þetta sé þjóðarréttur Suðurnesja og helsta framlag þeirra til íslenskrar matarmenningar.
Þar sem borgarinn er tilbúinn við pöntun þá er um sérlega skilvirkan hádegisverð að ræða. Það er engin tilviljun að hugtakið orkuverður (e. power lunch) leit dagsins ljós í Keflavík kringum 1980. Eigi menn viðskiptaerindi í Reykjanesbæ þá er Pulsuvagninn tilvalinn til snarps hádegisverðarfundar.
Auk Villaborgarans er boðið upp á fjölda annarra rétta á Pulsuvagninum þannig að flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Lengstum var einungis boðið upp á pulsur og Villaborgara og hreinræktaðir Keflvíkingar fá sér ekki annað. En eigendur staðarins hafa komið til móts við breytta samfélagsgerð og nýja tíma með fjölbreyttu vöruúrvali.
Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 27. apríl 2023.