Þrátt fyrir brösótt gengi innan vallar, þá náðu tekjur enska knattspyrnuliðsins Manchester United sögulegum hæðum á síðasta tímabili, sem náði frá 1. júlí 2018 og fram til 30. júní 2019. Tekjur félagsins á umræddu tímabili námu 627 milljónum punda, eða sem nemur tæplega 96 milljörðum króna. BBC greinir frá þessu.
Líkt og áður segir þá var gengi Manchester United innan vallar ekki upp á marga fiska á síðastliðnu tímabili. Liðið endaði í 6. sæti ensku Úrvalsdeildarinnar en um mitt tímabil var þjálfara liðsins, Portúgalanum Jose Mourinho, sagt upp störfum og tók Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær við stjórntaumunum.
Tekjur félagsins vegna sjónvarpsútsendinga jukust um 18% frá fyrra tímabili, en nýr sjónvarpsréttindasamningur vegna útsendinga frá Meistaradeild Evrópu vó þyngst í umræddri tekjuaukningu. Auglýsingatekjur félagsins stóðu svo nánast í stað frá fyrra ári.
Þó má reikna með því að tekjur Manchester United fyrir nýhafið tímabil (2019-2020) muni dragast saman, þar sem að félaginu mistókst að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á núverandi tímabili.
Byrjun tímabilsins sem nú er í fullum gangi hefur reynst félaginu erfið, en félagið hefur aðeins krækt í 8 stig í þeim að sex leikjum loknum í ensku Úrvalsdeildinni og situr í 8. sæti deildarinnar, 10 stigum frá toppliði Liverpool.