BYD-fjölskyldan stækkar enn og verða þrír nýir rafbílar frá kínverska bílaframleiðandanum frumsýndir um helgina. Um er að ræða BYD Seal, BYD Seal U og BYD Dolphin og fer frumsýningin fram hjá Vatt í Skeifunni 17.
BYD Seal er fallegur og sportlegur fólksbíll sem er gríðarlega aflmikill. Hann er með 310 hestöfl og aðeins 3,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Drægnin er allt að 520 km á rafmagninu.
Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins prufukeyrði Seal í Bæjaralandi í fyrrasumar og var mjög hrifinn af bílnum. Seal U er sportjeppi sem er með allt að 500 km drægni. Dolphin er rafdrifinn smábíll og er drægnin á rafmagninu allt að 427 km en hann er 7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.
BYD er stærsti framleiðandi rafknúinna bíla í heiminum. Fyrirtækið er þekkt fyrir nýsköpun á sviði rafhlöðutækni. BYD er enn fremur eini bílaframleiðandi heims sem framleiðir sjálfur rafhlöður sínar, örgjafa, stýrikerfi fyrir rafhlöður og rafmótora og koma allir BYD fólksbílar með hinni byltingarkenndu Blade-rafhlöðu.