Sýningin Ljóstillífun er uppskeruhátíð umfangsmikillar þróunarvinnu þar sem rannsóknum á hljóðvist og upplifun rýma er fléttað saman. Arkitektúr er nálgaður sem lífrænt kerfi þar sem sam- spil ljóss og hljóðs ræður ferðinni, með áherslu á vellíðan – hvernig rými getur bætt líðan, dregið úr áreiti og skapað jafnvægi. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2025.
Á sýningunni verður innsetningin TYRA frumsýnd, þar sem handgerðir hljóð- og ljóspanelar mynda marglaga upplifun. Gestir fá tækifæri til að skynja rými á nýjan hátt – þar sem hljóð og ljós ekki aðeins móta umhverfið heldur stuðla að jafnvægi og vellíðan.

Hvernig kviknaði hugmyndin að Ljóstillífun, og hverju vildirðu ná fram með sýningunni?
Ég er búin að þróa nýtingu á ull til hljóðvistar undanfarin ár, m.a. aðferðir til að skapa verðmæti úr uppsópi og endurnýtingu á ull. Með tilvísun í hringrásarhagkerfið var kominn tími til að kynna þá vinnu i heild sinni. Ljóstillífun er tilraun til að skapa andlegt súrefni með því að færa náttúrulegt umhverfi inn í rými og skapa sátt og ró.
Geturðu útskýrt hvernig hljóð og ljós skapa jafnvægi og vellíðan í rýmum?
Rannsóknir sýna að með góðri hljóðvist næst betri einbeiting, meiri afköst og betri líðan. Rannsóknir styðja líka við að með því að taka náttúruleg form og efni inn í rými þá stuðli það jafnframt að betri vellíðan. Birtan sem ég er að leitast eftir að skapa er eins, að hún veiti vellíðan. Ég tek það fram að ég er ekki ljóshönnuður og þarfir rýma eru margbreytilegar eftir starfsemi en það sem ég fæst við er stemnings birta.
Hvað gerir sýninguna að sérstakri upplifun fyrir gesti?
Sýningin er stór innsetning í efri hæð Ásmundarsals. Ég er að vinna innsetninguna inn í þetta tiltekna rými, með arkitektúr hússins í huga. Nú svo ég veit ég ekki hversu mikið á að gefa upp til að eyðileggja ekki upplifunina, langar að koma smá á óvart. Þar sem þetta er safn reyni ég að gera úr þessu leik líka. Leika til að reyna að ná ennþá frekar að „snerta“ á skynfærum fólks.

Viðtalið við Bryndísi Bolladóttur er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.
Hér er viðtalið í heild fyrir áskrifendur Viðskiptablaðsins.