Konudagurinn er frábær afsökun til að gleðja konuna í þínu lífi – hvort sem það er maki, mamma, vinkona eða þú sjálf (já, sjálfsdekur telst líka með). Hér eru tíu hugmyndir sem henta öllum fjárhagsáætlunum.
Gull og demantar – fyrir þann sem er með fjárhagslega burði (eða yfirdrátt)
Ef þú vilt virkilega slá í gegn og sanna að þú sért alvöru aðdáandi konunnar í þínu lífi, þá eru gull og demantar klassískt val. Fæst í öllum stærðum og gerðum, og hentar bæði fyrir ástfangna elskhuga og þá sem þurfa að bæta fyrir eitthvað stórt (eins og að gleyma afmælinu hennar í fyrra).
Snyrtivörur – því það er alltaf eitthvað sem klárast
Ef hún hefur gaman af snyrtivörum, þá er þetta öruggur sigurvegari. Uppáhalds ilmurinn hennar, góður handáburð eða lúxus andlitsmaski eru allt hlutir sem hún mun nota og njóta. Ef þú vilt skora auka stig, geturðu fengið ráðleggingar frá starfsfólki í snyrtivöruverslun eða laumast í baðskápinn hennar til að sjá hvaða vörur eru næstum búnar (og já, þú mátt alveg taka mynd svo þú veljir ekki vitlaust!).
Nudd – af því allir þurfa stundum að slaka á
Flestir elska að fá nudd, og það er einföld og örugg leið til að gleðja einhvern. Þú getur valið á milli þess að bóka tíma hjá atvinnumanneskju (öruggt val) eða bjóðast til að nudda hana sjálfur með olíum og kertaljósum.

Lúxusbrunch – því hver elskar ekki að borða?
Ef þú hefur ekki tíma til að plana flókið kvöldverðarboð eða eyða hálfum degi í eldhúsinu, þá er morgunverðarhlaðborð eða góður brunch frábær lausn. Þar getur hún gætt sér á öllu frá eggjahræru til kampavíns.
Skemmtileg afþreying – því ef hún hefur gaman af einhverju, geturðu tekið þátt í því
Bókaðu vínsmökkun, spunanámskeið eða jafnvel námskeið í japanskri leirkeragerð ef þú heldur að það gleðji hana. Aðalmálið er að sýna að þú vitir hvað henni finnst skemmtilegt og ert tilbúinn að vera með.
Gjafakort – ef þú ert alveg týndur
Já, sumir segja að gjafakort séu “ópersónuleg”, en satt að segja er það betra en illa valin gjöf. Lykillinn er að velja réttu verslunina – uppáhaldsbúðin hennar? Já. Tækjaverslun fyrir eldhúsgræjur? Nei.
Blóm – því jafnvel klisjur virka
Blóm eru klisja af ástæðu. Þau eru falleg, ilma vel og þú þarft ekki að vita skóstærðina hennar til að þau passi. Ef þú vilt fara extra langt skaltu velja uppáhaldsblómin hennar (og ef þú veist ekki hver þau eru, þá hefurðu núna góða ástæðu til að komast að því).
Dekurdagur heima – fullkomið fyrir þá sem vilja eyða litlu en skora hátt
Búðu til spa-stemningu heima: Fótabað, kerti, andlitsmaski og kannski smá kampavín. Fyrir aukastig geturðu látið hana “panta tíma” í spa-inu þínu og leikið hlutverkið sem starfsmaður á móti henni með handklæði yfir handleggnum.
Kvöld með uppáhaldsseríunni hennar – án þess að kvarta yfir plottinu
Ef hún elskar tiltekna sjónvarpsseríu en þú hefur alltaf neitað að horfa á hana með henni, þá er þetta fullkomið tækifæri til að sýna væntumþykju. Skilaboðin eru einföld: “Við horfum á þetta og ég ætla ekki að kvarta yfir því.”
Handgerð gjöf – því það er hugurinn sem gildir (sumar konur trúa því enn)
Handgerð kort, lagalisti með lögum sem minna á ykkur, eða ljóð sem þú semur (jafnvel þó það sé lélegt). Þetta er ódýrt en fallegt ef þú setur ást í það.