Þegar nýtt ár gengur í garð leggjast margir í nýársheit eða velta fyrir sér nýjum ævintýrum sem gætu verið spennandi að taka þátt í. Margir Íslendingar sem hafa farið í ótal ferðir til Tenerife vilja kannski byrja að undirbúa sumarið og skoða aðra framandi áfangastaði.
Fréttamiðillinn Wall Street Journal hefur tekið saman lista yfir tíu flottustu áfangastaði fyrir árið 2024 sem bjóða upp á bæði sól og menningu.
Malasía
Á meðan heimsfaraldur stóð yfir hætti hágæða lestarferðaþjónustufyrirtækið Eastern & Oriental Express train starfsemi sinni en notaði tímann engu að síður í að endurgera lestina.
Fyrirtækið fékk til sín taívanska kokkinn André Chiang um borð til að þróa sérstaka suðausturasíska rétti og mun lestin byrja að ferðast um nýja leið sem opnar í næsta mánuði.
Ferðaáætlun fyrirtækisins býður upp á ferðir á vespum um hinn sögulega George Town, strendur og frumskóga Langkawi-eyjunnar og gönguferðir um frumskóginn við Taman Negara. Þeir sem eru heppnir geta jafnvel séð malasísk tígrisdýr.
Ný hótel eru einnig að opna í höfuðborginni Kuala Lumpur og hefur borgin þar að auki birt sinn fyrsta Michelin-bækling sem gefur svöngum ferðalöngum ýmsa kosti áður en þeir fara á lestarstöðina. Park Hyatt hótelið mun þar að auki brátt taka yfir Merdaka 118-bygginguna, næst hæstu byggingu heims.
Lamu, Kenía
Safarígarðar Keníu eru eitt það vinsælasta sem þjóðin býður upp á en eyjan Lamu rétt fyrir utan norðausturströnd landsins býður sólþyrstum ferðalöngum upp á ró og menningu.
Dagarnir eru fullir af siglingum, lautarferðum á ströndinni, köfunarleiðöngrum og gönguferðum. Þar að auki opnaði Lamu-safnið aftur í október eftir áralanga endurnýjun.
Þessi sólarströnd er góð blanda af menningu og sögu og veitir jafnframt skemmtilega verslunarupplifun þegar fólk vill taka sér hvíld frá sólinni.
Kangaroo Island, Ástralía
Skógareldarnir í Ástralíu 2019-2020 útrýmdu rúmlega helming af öllu dýralífi á eyjunni, en síðan þá hefur Kengúrueyjan, sem liggur í um 14 kílómetra fjarlægð frá suðurhluta Ástralíu, náð sér aftur.
Eyjan hefur oft verið kölluð Galápagos Ástralíu en hún er jafnframt einn besti staður landsins til að sjá kalabirni og kengúrur. Mörgæsir, hvalir, platdýfur og veggjadýr finnast einnig á eyjunni.
Sea Dragon hótelið opnaði á ný árið 2023 en það situr á stórri hæð með fallegu sjávarútsýni þar sem hægt er að sjá fugla og fara í mismunandi dýraferðir. Southern Ocean Lodge, sem brann niður í skógareldunum, opnaði aftur í desember en það er þekkt fyrir gott úrval af víntegundum.
Kyushu, Japan
Eyjan Kyushu er staðsett í suðurhluta Japan og er ein af fjórum stærstu eyjum landsins. Í fjölmörg ár hefur hún verið mjög vinsæl meðal ferðamanna í Asíu en nýlega hafa fjölmörg þróunarverkefni gert eyjuna að skemmtilegum áfangastað fyrir næturlíf.
Á þessu ári mun hótelið Indigo Nagasaki opna dyr sínar en byggingin var áður fyrr munaðarleysingjahæli eftir kjarnorkusprengjuna.
Ferðaþjónustan á eyjunni leggur mikla áherslu á mat, keramik og náttúru og verður ný lestarferð bráðum opnuð sem fer með fólk í fimm klukkustunda skoðunarferð um eyjuna.
Kansas City
Margir myndu halda að Kansas City sé vinsæll áfangastaður vegna frétta um Taylor Swift og Travis Kelce, en borgin var löngu farin að bjóða upp á frábæra menningu áður en slúðurfréttir fóru af stað.
Nýr fótboltaleikvangur mun opna í mars sem var gerður fyrir kvennalið Kansas City, The Kansas City Current. Völlurinn mun einnig þjónusta tónleika, hátíðar og markaði.
Rock Island Bridge-brúin mun svo bráðum tengja saman ríkin Kansas og Missouri með mikið úrval af börum og kaffihúsum. Fyrir neðan brúnna verður einnig hægt að fara á kajak. Miðbærinn mun einnig opna hverfi sem ber heitið Pennway Point og þar má finna bjórgarða, BBQ-staði, tónlist og Parísarhjól.
Prag
Höfuðborg Tékklands mun í ár minnast þess að 100 ár eru liðin frá dauða rithöfundarins Franz Kafka. Í byrjun mars munu ferðaþjónustufyrirtæki í Prag bjóða upp á göngutúra um borgina til að sýna fólki hvar Kafka bjó og vann.
Í maí mun svo bókmenntasafn Tékklands afhjúpa margmiðlunarsýningar af verkum hans og mun Gyðingasafnið einnig sýna Kafka-miðaðar kvikmyndasýningar. Að lokum mun Goethe-stofnunin, þýsk menningarmiðstöð, bjóða upp á upplestur og leiksýningar.
Quintana Roo, Mexíkó
Júkatanskaginn er vel þekktur áfangastaður fyrir sólþyrsta ferðalanga en í ár mun hann sanna sig sem staður sem býður upp á mun meira.
SHA Wellness Clinic, sem hefur verið fyrir spa-meðferðir, mun í þessum mánuði opna útibú í bænum Costa Mujeres en byggingin var hönnuð af Fabiano Continanza og er í laginu eins og DNA-sameind.
Í klukkutíma fjarlægð opnaði Riviera Maya Edition hótelið í Kanai nýlega í 620 hektara friðlendi og býður upp á upplifun langt inn í frumskógi.
Nálægt landamærum Belís situr einnig bærinn Bacalar sem hýsir 40 kílómetra langt gagnsætt lón.
Buenos Aires, Argentína
Þrátt fyrir núverandi efnahagserfiðleika Argentínu er þjóðin engu að síður enn með sinn sjarma og sína ríku menningu. Hverfið Belgrano í Buenos Aires býður til að mynda upp á litríkt líf sem dáð er af heimamönnum og blandar saman fótbolta og kjötáti.
Eftir að hafa horft á fótboltaleik á El Monumental, stærsta fótboltaleikvangi Suður-Ameríku, er tilvalið að skella sér á Corte Comedor til að smakka úrval kjöttegunda eða finna sér grillstaði á götum borgarinnar.
Fyrir þá sem vilja hágæða mat er alltaf hægt að kíkja á veitingastaðinn Aramburu sem fékk nýlega tvær Michelin-stjörnur í nóvember.
Boundary Waters Canoe Area Wilderness, Minnesota
Icelandair flýgur beint til Minneapolis St. Paul en fyrir þá sem hafa þegar heimsótt Mall of America er hægt að leigja bíl og keyra í fjóra klukkutíma til að sjá ósnortna náttúru við landamæri Kanada.
Á þessu svæði er enn hægt að drekka beint úr nokkrum af stöðuvötnunum á þessu svæði en fleiri en 250 þúsund manns heimsækja Boundary Waters á hverju ári til að fara á kajak, gista í trékofum og fara í göngutúra.
Sumir keyra 97 kílómetra vegalengdina þar sem garðurinn byrjar og stöðuvötnin enda en á leiðinni er hægt að stoppa og fá sér kardimommusnúð við Loon‘s Nest Coffee sem opnaði í fyrra. Eftir að hafa farið á kajak er hægt að slaka á við Gunflint Lodge og vakna svo um morguninn við fuglasöng og vatnsglas beint úr stöðuvatninu.
Baleareyjar, Spánn
Mallorca er ekki eina eyjan í þessum eyjaklasa sem býður upp á sól og skemmtun. Ibiza var til að mynda eitt sinn vinsæll staður fyrir partýstand og techno-tónlist en nú er hún hægt og rólega að breytast í afslöppunareyju.
Á eyjunni Minorca hafa stjórnvöld einnig verið að hægja á byggingu til að vernda náttúru og hafa því heimamenn byrjað að gera upp gamlar byggingar í stað þess að rústa þeim og byggja nýjar. Til að mynda má finna bygginguna Son Vell sem var hönnuð á nítjándu öld og er nú orðin 34-herbergja hótel með jógakennslu, al fresco kvikmyndahúsi og síðast en ekki síst, rólegheit frá allri bassatónlistinni.