Bílasala á Íslandi gekk illa árið 2024 og seldust alls 10.220 fólksbílar á árinu, samanborið við 17.542 árið 2023. Samdrátturinn nemur 42% og er þetta næst versta bílasöluárið síðasta áratuginn. Skýringin er án nokkurs vafa háir vextir og verðbólga.

Toyota var mesti seldi bílaframleiðandinn á Íslandi árið 2024, annað árið í röð, með 1.634 selda fólksbíla, samanborið við 2.997 árið áður. Kia var næst mest seldi. Salan var 1.340 bíla samanborið við 1.956 árið áður.

Hyundai var í þriðja sæti með 1.173 selda bíla og jók söluna milli ára, úr 891 bíl.

Tesla, sem var mest seldi bílaframleiðandinn árið 2023 á Íslandi, seldi 563 bíla samanborið við 3.547 árið á undan. Nam samdrátturinn 84%.

Rafbílasala dróst mikið saman

Hlutfall hreinna rafbíla í bílasölu ársins 2024 var 26% en var 50% árið á undan.

Meginskýringin á lægra hlutfalli rafbíla var breytt niðurgreiðslukerfi á rafbílum og nýtt kílómetragjald á bílana. Á hreina rafbíla leggst 6 krónur á hvern ekinn kílómetra en 2 krónur á tvinnbíla.

Flestar nýskráningar voru í rafbílum en alls voru 3.095 nýir rafbílar skráðir á síðasta ári sem er um 25% af markaðnum. Dísilbílar voru þar á eftir í öðru sæti með 2.599 nýskráningar og tengiltvinnbílar (plug in hybrid) voru í þriðja sætinu með 2.087 bíla.

Nýskráningar fólksbíla hjá almennum fyrirtækjum, án ökutækjaleiga, drógust saman um 44% og voru samanlagt 1.520 fólksbílar nýskráðir árið 2024, en árið áður voru þeir 2.695. Bílaleigubílar voru um helmingur allra nýskráðra fólksbíla á árinu. Samtals voru nýskráðir 4.904 bílaleigubílar árið 2024 sem er 30% færri bílar en á fyrra ári.

Dacia Duster er vinsæll bíll hjá bílaleigum á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.