Sigrún Buithy Jónsdóttir tók við sem markaðsstjóri BL fyrir rúmum tveimur árum. Hún hafði áður verið markaðsstjóri systurfyrirtækis BL, FLEX langtímaleigu, en viðurkennir að það hafi verið mikið stökk að fara á milli. Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur í kynningateymi UNICEF á Íslandi.
„Það kom mörgum á óvart þegar ég hóf störf í bílgreininni enda ekki þekkt fyrir mikinn bílaáhuga en það breyttist hratt og áður en ég vissi af var ég farin að ræða bíla á kvöldin við manninn minn, honum til mikillar skemmtunar, enda er hann vægast sagt áhugasamur um bíla,“ segir Sigrún.
„Starfið á afar vel við mig, það er ávallt nóg að gera og verkefnin fjölbreytt en markaðsdeild BL sér um markaðssetningu á 13 mjög svo ólíkum vörumerkjum í dag. Að sjá hvernig ólíkar markaðsstofur framleiðenda héðan og þaðan í heiminum markaðssetja sig finnst mér einna áhugaverðast við starfið og svo að sjálfsögðu að skoða árangur og sölutölur markaðs herferðanna okkar,“ segir hún.
Sigrún er með master í markaðssetningu og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og BS í sálfræði frá HÍ líka og segir að þessi blanda gagnist henni afar vel í starfi.
„Sálfræðin snýst að miklu leyti um atferli einstaklingsins á meðan markaðssetningin reynir að hafa áhrif á atferli stærra mengis af fólki.“
Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?
„Ætli ég að það sé ekki Range Roverinn sem við hjónin fengum lánaðan frá BL þegar við giftum okkur. Hann er án efa eftirminnilegastur. Lúxusinn gerist varla meiri og mér leið eins og prinsessu á leiðinni í kirkjuna.“
Uppáhaldsbíllinn sem þú hefur átt?
„Ég myndi segja að það sé bíll inn sem ég er á núna en það er BMW iX1 M Sport. Hann er fullkominn fyrir mig. Hljómkerfið er geggjað, nóg pláss fyrir börn og vini í æfingaskutl en ekki of stór því ég er yfirleitt ein í bílnum. Hann er mjög lipur og kraftmikill sem hentar mér einstaklega vel því ég á það til að vera pínu sein. Og svo er það snertilausa opnunin á afturhleranum sem ég skil ekki hvernig ég lifði án áður. Hvaðan koma allar þessar töskur og pokar sem ég er alltaf með. Þetta fylgir víst börnunum.“
Hver er eftirminnilegasta bílferðin?
„Mér dettur strax í hug ein skemmtileg ferð hér á Íslandi. Það var fyrsta Defender ferðin sem BL hélt fyrir viðskipta vini eftir að ég tók við markaðsdeildinni en þá héldu tugir Defender jeppar saman í ævintýraferð inn í Þórsmörk. Ferðin gekk eins og í sögu og stemningin var einstaklega góð í grillveislunni sem við buðum upp á inni í mörkinni. Þetta var um haust og litirnir eftir því en myndefnið úr ferðinni heillaði Land Rover úti upp úr skónum og það var svo notað sem sýnisdæmi fyrir viðburði fyrir aðra markaði sem var skemmtilegt.“

Skemmtilegasta bílferðin erlendis?
„Það myndi líklega vera þegar ég og maðurinn minn keyrðum strandlengjuna frá San Fransisco til LA fyrir mörgum árum síðan. Leiðin er betur þekkt sem Pacific Coast Highway (PCH). Við leigðum Chevrolet Malibu, voðalega amerískt eitthvað, og ég held ég hafi sungið Call Me Maybe með Carly Rae svona 350 sinnum á leiðinni en þetta var fjögurra daga ferðalag. Það er eiginlega fátt sem jafnast á við „road trip“ með sínum besta vini, í góðu veðri, umkringdur fallegum gróðri öðru megin og sjónum hinu megin, verandi kornungur, frjáls og algerlega áhyggjulaus.“
Hvað hlustarðu á í bílnum?
„Þetta er kannski pínu spes en ég hlusta rosalega mikið á erlend hlaðvörp sem læknar halda um heilsu. Ég get ekki sagt að ég fari mikið eftir því sem er talað um í þessum hlaðvörpum samt. Stundum kveiki ég á tónlist, sérstak lega ef einhver er með mér í bílnum. Ég er alæta á tónlist, stundum er ég í poppinu, aðra daga í gömlu rokki og svo leynist lítill rappari líka inni í mér sem þarf stund um útrás. Ef ég er með dóttur minni þá syngjum við saman lög Ariönu Grande í bílnum en ef strákurinn er með mér þá kemst lítið annað en Væb að þessa dagana.“

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?
„Kappakstri, allan daginn. Ég elska að fara hratt.“
Hver er draumabíllinn?
„Ég er búin að vera að hugsa rosalega mikið um Defender Octa síðustu mánuðina. Við vorum að vinna efni um hann og ég hef bara ekki náð þessum geggjaða jeppa úr hausnum á mér síðan. Ég vaknaði meira að segja einu sinni upp úr draumi um hann. Þá er maður greinilega heltekinn.“
Ef þú ættir að nefna draumabíl fyrir utan þau merki sem þú ert að vinna með hvern myndirðu þá velja?
„Mansory Lamborghini Urus eins og Kim Kardashian lét gera fyrir sig fyrir nokkrum árum síðan. Hann var og er geggjaður.“
Greinin birtist fyrst í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaði vikunnar.