Skýrr hf og Fasteignamat ríkisins (FMR) hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf um miðlun Skýrr á upplýsingum um veðbönd fasteigna frá þinglýsingum allra sýslumannsembætta á landinu.

Skýrr hafði áður miðlað upplýsingum fyrir um það bil 90% fasteigna á landinu, samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið. Með tilkomu nýs kerfis FMR og samnings við Skýrr getur fyrirtækið nú miðlað upplýsingum um allar þinglýstar fasteignir á landinu.

Veðbandkerfi ökutækja (lausafjár) er nú þegar í vörslu og rekstri hjá Skýrr, samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið.

Þar með getur Skýrr miðlað þinglýstum upplýsingum um veðbönd allra fasteigna og ökutækja á landinu.

Skýrr hefur í tengslum við þessar breytingar opnað nýtt vefsvæði á slóðinni vedbond.is þar sem miðlað er umræddum upplýsingum til þess bærra aðila.

Eftirtöldum aðilum má vegna starfsemi þeirra veita aðgang að upplýsingum á vedbond.is: opinberum stofnunum, héraðsdóms- og hæstaréttarlögmönnum, löggiltum fasteigna- og skipasölum, bifreiðasölum, sem leyfi hafa samkvæmt lögum um sölu notaðra ökutækja, bönkum, sparisjóðum og opinberum lánastofnunum, fjármögnunar- og fjárfestingarfyrirtækjum, vátryggingafélögum og öðrum aðilum, enda hafi Persónuvernd áður veitt samþykki sitt fyrir aðgangi slíks aðila.

Aðgangur að þinglýsingum ökutækja og fasteigna á vedbond.is kostar 1.500 kr. á mánuði og uppflettting/útprentun á hverju veðbandayfirliti kostar 500 kr. hér eftir sem áður.