Karl Lagerfeld, einn þekktasti og áhrifamesti fatahönnuður heims, skildi eftir sig arfleifð sem enn fangar áhuga fólks um allan heim. Í heimildarþáttaröðinni, "Becoming Karl Lagerfeld," er kafað djúpt í líf og feril þessa goðsagnakennda hönnuðar, uppgang hans og ómetanleg áhrif á tískuheiminn.
Þáttaröðin, sem var frumsýnd á Disney+ 7. júní 2024, er byggð á metsölubókinni „Kaiser Karl“ eftir Raphaëlle Bacqué og fer Daniel Brühl með hlutverk hans. Eins og titill þáttaraðarinnar gefur til kynna er þetta upprunasaga frekar en ævisaga og þættirnir sex spanna tímabilið áður en hann varð aðalhönnuður hjá Chanel. Sagan hefst árið 1972 þegar hann var lausráðinn hönnuður í París og vann fyrir Fendi og Chloé og baráttu hans í þeim frumskógi sem tískuheimurinn var á áttunda áratugnum. Á þessum tíma var hann líka áberandi í franska næturlífinu og var í harðri samkeppni við Yves Saint Laurent (Arnaud Valois), sem flæktist enn frekar vegna keppni þeirra um ástir ungs rithöfundar Jacques de Bascher (Théodore Pellerin). Þáttaröðin er tekin í nokkrum af frægustu borgum heims, eins og París, Mónakó og Róm og er sannkallað augnakonfekt, hvort sem það er tíska, innanhúshönnun eða umhverfi.
Enn fremur fylgjumst við með þróun á hans persónulega stíl og áhrifum hans á nútímatísku. Þekktur fyrir sérkennandi útlit sitt - hvítt hár, svört sólgleraugu og hvítar skyrtur með háum kraga - varð Lagerfeld sjálfur að tískutákni. Hæfni hans til að móta og viðhalda ímynd sinni ber vitni um skilning hans á tísku, bæði sem listformi sem og viðskiptahliðinni.
„Becoming Karl Lagerfeld“ fjallar um tengsl hans við aðra áhrifamikla einstaklinga og stjörnur í tískuheiminum. Samskipti hans og samstarf við ýmsa listamenn, fyrirsætur og hönnuði eru í brennidepli, sem sýnir hvernig víðtækt tengslanet hans var en jafnframt hvernig hann sveifst einskis til að ná árangri. Þetta, ásamt hæfileikum hans, fleytti honum í fremstu röð greinarinnar.
Útgáfa „Becoming Karl Lagerfeld“ kemur á tíma þegar vaxandi áhugi er á persónulegum sögum á bak við frægustu einstaklinga tískuheimsins. Í kjölfar velgengni annarra ævisögulegra þáttaraða, eins og „Cristobal Balenciaga“ á Disney+, veitir þessi þáttaröð innsýn í sorgir og sigra í lífi Lagerfelds. Hún miðar að því að gera goðsögnina mannlega og fagna arfleifð hans í tískuheiminum
Þar sem tískuheimurinn heldur áfram að þróast, eru áhrif Lagerfelds enn áberandi. Nálgun hans á hönnun, sem einkenndist jafnt af djarfri nýsköpun og djúpri virðingu fyrir hefðum, heldur áfram að vera innblástur fyrir nýjar kynslóðir hönnuða. „Becoming Karl Lagerfeld“ er ómissandi fyrir alla þá sem elska fagurfræði og tísku.