Kári Finnsson, hagfræðingur og markaðsstjóri hjá Creditinfo, mun kynna í dag bókina Árangursríki stjórnandinn eftir Peter F. Drucker. Bókin var þýdd yfir á íslensku af honum sjálfum og verður bókinni fagnað með útgáfuhóf klukkan 17:00 í dag í bókabúð Sölku á Hverfisgötu.
Hann segir að af öllum þeim bókum sem fjalla um viðskipti og stjórnun sem hann hafi lesið sé þessi án efa sú gagnlegasta. Hún sé alltaf til staðar þegar hann glímir við einhvers konar erfiðar áskoranir í starfi sínu.
„Bókin er fyrst og fremst skrifuð fyrir þekkingarstarfsfólk sem ber ábyrgð í starfi og er markmiðið að hjálpa þeim að öðlast réttu tólin til að ná árangri í starfi. Það er til að mynda farið yfir það hvernig maður nýtir tímann vel og hvernig maður uppgötvar styrkleika sína og nýtir þá í sínu starfi. Það er einnig mikil áhersla lögð á framlag en fólk á það til að gleyma að spyrja sig hvaða framlagi vinna þeirra skilar þegar allt kemur til alls,“ segir Kári.
Höfundur bókarinnar, Peter F. Drucker, er talinn vera mikill frumkvöðull í stjórnunarfræði og telja margir í viðskiptalífinu að hann hafi gegnt lykilhlutverki í því að gera stjórnunarfræði að fagi út af fyrir sig. Stjórnunarhættir margra fyrirtækja í dag til að mynda eiga rætur sínar að rekja til þeirra kenninga sem hann kom á framfæri fyrir mörgum árum síðan.
„Það geta allir verið árangursríkir stjórnendur og náð árangri ef þeir stýra tíma sínum vel.“
Í bókinni dregur höfundurinn fram fimm grundvallaratriði sem ættu að reynast öllum stjórnendum gott veganesti. Hvernig við uppgötvum styrkleika okkar, hvað við getum lagt af mörkum, hvernig við einbeitum okkur, hvernig við tökum ákvarðanir og síðast en ekki síst, hvernig við nýtum tímann okkar.
„Það þekkja allir árangursríkt fólk í kringum sig sem virðist bara geta allt. Fólk sem skilar ótrúlega miklu af sér, nær ótrúlegum árangri en samt hefur þetta fólk bara jafn mikinn tíma og við hin. Maður hugsar bara hvort svoleiðis einstaklingar séu einhver ofurmenni en það sem ég áttaði mig á við að lesa þessa bók er að það geta allir verið árangursríkir stjórnendur og náð árangri ef þeir stýra meðal annars tíma sínum vel.“
Höfundurinn ráðleggur fólki að gera skýrslu um það hvað tími þeirra fer í. Kári segir að flestir eiga það til að halda að tími þeirra fari í ákveðin verkefni fyrir hádegi og svo önnur verkefni eftir hádegi en þegar tíminn er svo raunverulega skráður kemur allt annað í ljós. Eftir tvær vikur ætti lesandi svo að sjá ákveðið mynstur sem sýnir að stór hluti af tíma hans fer í verkefni sem skila engu.
„Ég vildi óska þess að ég hefði lært þetta í háskóla. Í vinnunni er til dæmis fullt af fundum og erfiðum ákvörðunum sem þú þarft að taka og þú ert engan veginn undirbúinn fyrir þetta. En með þessari bók færð þú góðan leiðarvísi til að drífa fram árangur,“ segir Kári.