Álfheiður Ágústsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra fjármála og innkaupa hjá Elkem Ísland undanfarin ár, hefur tekið við starfi forstjóra verksmiðjunnar.
Fráfarandi forstjóri, Einar Þorsteinsson, hefur af persónulegum ástæðum óskað eftir að draga úr vinnuframlagi sínu og ábyrgðum en hann mun taka sér stöðu við hlið nýráðins forstjóra sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnumarkaðar.
Álfheiður hóf störf hjá Elkem Ísland sem sumarstarfsmaður árið 2006, fyrst í framleiðslunni og síðar á fjármálasviði. Í upphafi sinnti hún ýmsum störfum hjá Elkem samhliða námi sínu í reikningshaldi og endurskoðun og hefur síðan verið í fullu starfi frá árinu 2009.
Álfheiður segir verkefnin framundan bæði spennandi og krefjandi.
„Ég þekki okkar frábæra starfsfólk og grunnþætti verksmiðjunnar vel eftir öll þessi ár hér á Grundartanga. Þekkingin og samheldnin sem hér er til staðar er öflugt hreyfiafl og það er mikill heiður að fá að leiða þennan stórkostlega hóp áfram til góðra verka á tímum sem krefjast örra breytinga og aðlögunar,“ segir Álfheiður.
„Ég er viss um að saman muni okkur takast að leggja grunn að farsælu starfi í góðri sátt við bæði umhverfi okkar og viðskiptavini til langrar framtíðar. Í þeim efnum mun áframhaldandi nærvera og þekking forvera míns vafalaust skipta miklu máli og ég vil nota þessi tímamót til þess að þakka Einari Þorsteinssyni fyrir sitt mikla framlag til starfseminnar hér um langt árabil.“