Arna Harðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Heilbrigðislausna Origo og Kjartan Hansson hefur jafnframt verið ráðinn sem stjórnandi í vöru- og viðskiptaþróun Heilbrigðislausna Origo.

Origo réð Örnu til starfa í nóvember 2020 þar sem hún leiddi sölu- og markaðsstýringu á sviði heilbrigðislausna. Arna er þar öllum hnútum kunnug en hún hefur átt stóran þátt í stefnumótun sviðsins undanfarna mánuði og mun halda þeirri vinnu áfram í nýju hlutverki.

„Heilbrigðislausnir Origo eru á gífurlega spennandi vegferð sem ég er stolt að fá að leiða. Við búum yfir mikilli reynslu og sérþekkingu á sviði heilbrigðislausna sem við munum nýta til að halda áfram að þjónusta íslenskt heilbrigðiskerfi og efla okkur enn frekar í nýsköpun og vöruþróun,“ segir Arna.

Kjartan Hansson mun þá taka að sér að leiða verkefni á sviði vöruþróunar og nýsköpunar og koma að þróun nýrra lausna á því sviði. Kjartan hóf störf hjá Origo árið 2019 sem forstöðumaður Stafrænna þjónustulausna á hugbúnaðarsviði Origo.

Jón Björnsson, forstjóri Origo, segir að Arna hafi spennandi sýn á hvernig nota megi tækni til að ná betri árangri og jákvæðari upplifun af heilbrigðiskerfinu bæði fyrir starfsfólk og samfélagið.

„Sú reynsla og þekking sem er fyrir hjá okkur og drifkraftur Örnu og Kjartans mun án efa skapa ný tækifæri á sviði heilbrigðistækni,“ segir Jón.