Arnþór Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölusviðs Coca-Cola á Íslandi. Hann er með B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Saint Mary´s háskóla í Kanada og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að hefja störf hjá hjá Coca-Cola á Íslandi og kynnast því frábæra fólki sem þar starfar,“ segir Arnþór.

Undanfarin fjögur ár hefur Arnþór starfað sem stjórnandi hjá Artasan, sem sölu- og markaðsstjóri lausasölulyfja og þar áður sem sölustjóri félagsins.

Arnþór tekur við starfinu af Önnu Regínu Björnsdóttur sem tók við sem forstjóri fyrirtækisins á vormánuðum.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Arnþór til liðs við það flotta teymi sem vinnur hjá Coca-Cola á Íslandi. Hann er reynslumikill og býr yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu þegar kemur að stjórnun sölu- og þjónustumála. Við teljum reynslu og þekkingu Arnþórs nýtast vel á leið fyrirtækisins í átt að enn betri og skilvirkari þjónustu við viðskiptavini og neytendur hér á landi,“ segir Anna Regína.