Akademias hefur ráðið Atla Óskar Fjalarsson til að stýra rekstri framleiðsludeildar Akademias en félagið framleiðir rafræn námskeið, verkefni og leiki fyrir starfsmannaþjálfun á vinnustöðum.

Atli lauk gráðu í leiklist og kvikmyndagerð í Los Angeles árið 2017 og hefur verið tilnefndur tvívegis til Edduverðlaunanna.

Hann hefur komið að fjölda stórra framleiðsluverkefna fyrir ýmis fyrirtæki í kvikmyndabransanum hérlendis og erlendis. Til viðbótar er Atli nú að vinna að meistararannsókn í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.

„Atli kemur með mikla reynslu og þekkingu inn í framleiðsluna okkar. Undanfarin fjögur ár hefur Akademias framleitt yfir 350 námskeið fyrir um 150 viðskiptavini. Við stöndum líka á miklum tímamótum í þróun á rafrænu námsefni þar sem gervigreind, leikir og gagnvirk verkefni eru farin að spila sífellt stærri þátt,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akademias.

Sjálfur segist Atli spenntur fyrir nýju hlutverki: „Það er mikill kraftur í teyminu hjá Akademias og er ég fullur tilhlökkunar til að takast á við þetta nýja hlutverk og styðja við frekari vöxt og þróun.“