Alvotech hefur ráðið Benedikt Stefánsson í stöðu forstöðumanns fjárfesta- og almannatengsla. Benedikt verður ábyrgur fyrir fjárfestatengslum Alvotech á Íslandi og samskiptamálum alþjóðlega.

Benedikt var áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling International, sem vinnur að lausnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar áður starfaði hann við viðskiptaþróun og síðar sem yfirmaður sölu- og markaðsmála fyrir Íslenska erfðagreiningu. Benedikt hefur einnig unnið sem blaðamaður og á fjármálamarkaði auk þess að hafa gegnt stöðu aðstoðarmanns fjármála- og efnahagsráðherra.

Benedikt er með C.Phil. og MA gráðu í hagfræði frá University of California, Los Angeles (UCLA) og B.S. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár verið formaður stjórnar Grænu orkunnar og setið í stjórn alþjóðlegra samtaka hagsmunaðila á sviði kolefnisendurvinnslu, CO2 Value EU.

Benedikt er giftur Björgu Kjartansdóttur, sviðsstjóra fjáröflunar- og kynningarmála Rauða krossins á Íslandi, og eiga þau þrjá syni.

Benedikt Stefánsson:

„Stofnendur og starfslið Alvotech hafa lyft grettistaki til að þróa alþjóðlegt líftæknifyrirtæki með öflugar rætur í íslensku samfélagi. Undanfarin ár hef ég einbeitt mér að umhverfismálum og hlakka nú til að takast á við önnur samfélagslega mikilvæg verkefni, að bæta lífsgæði sjúklinga og lækka heilbrigðiskostnað með auknu aðgengi að nýjum lyfjum. Ég er fullur tilhlökkunar að kynna næstu áfanga í þessari einstöku vegferð Alvotech fyrir fjárfestum og almenningi.“