Berglind Rán Ólafsdóttir hefur verið ráðin forstjóri ORF Líftækni en staðan var auglýst í kjölfar uppskiptingar fyrirtækisins í ORF Líftækni annars vegar og Bioeffect hins vegar. Liv Bergþórsdóttir hefur sinnt forstjórastarfinu hjá ORF Líftækni samhliða forstjórastarfinu hjá Bioeffect en mun nú einbeita sér að rekstri og vexti síðarnefnda félagsins.
Berglind Rán kemur frá Orku náttúrunnar þar sem hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastýru í rúm fjögur ár auk þess sem hún er stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.
ORF Líftækni sérhæfir sig í plöntulíftækni og hefur framleitt vaxtarþætti í um 15 ár. Nýsköpun og sérstaða ORF Líftækni byggir á framleiðslu vaxtarþátta í byggplöntum. ORF Líftækni starfar nú eftir skýrri framtíðarsýn um að vera virkur þátttakandi í nauðsynlegum breytingum í matvælaframleiðslu heimsins með ræktun og framleiðslu dýravaxtarþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt.
Berglind Rán er með M.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE í Barcelona og býr bæði yfir haldgóðri reynslu af viðskiptaþróun, m.a. frá Medis – dótturfélagi Actavis og Landsvirkjun, og vísindarannsóknum frá Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún vann við erfðafræðirannsóknir.
Sigtryggur Hilmarsson, stjórnarformaður ORF Líftækni:
„Spennandi tækifæri og framtíð bíða ORF Líftækni samhliða sókn inn á nýjan markað fyrir dýrarvaxtarþætti. Við erum gríðarlega ánægð með að fá Berglindi Rán til að leiða þessa nýju vegferð félagsins og erum sannfærð um að menntun hennar, þekking og reynsla muni nýtast vel í þeirri vegferð,“ segir
Berglind Rán Ólafsdóttir:
„Það gefast ekki oft tækifæri til að leiða fyrirtæki til vaxtar á markaði sem er rétt í mótun. Ég hlakka til að leiða ORF Líftækni og fá þannig tækifæri til nýta bæði líftæknimenntun mína og reynslu og þekkingu úr viðskiptalífinu. Dýravaxtarþættir ORF Líftækni hafa þegar sannað sig á þessum nýja markaði sem líklegast mun hafa meiri áhrif á neyslu okkar á dýraafurðum en nokkuð annað. Ég hlakka mikið til að leiða þá vinnu sem er framundan svo við getum lagt okkar af mörkum til þess að breyta heiminum til góðs.“