Skagi, móðurfélag VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar, hefur gert breytingar á framkvæmdastjórn félagsins. Sigrún Helga Jóhannsdóttir, sem gegnir nú starfi yfirlögfræðings Skaga, og Birgir Örn Arnarson, sem gegnir starfi framkvæmdastjóra áhættustýringar samstæðunnar, taka sæti í framkvæmdastjórn.
Í framkvæmdastjórn sitja einnig Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, Brynjar Þór Hreinsson, fjármálastjóri samstæðu, Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar, Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, og Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS trygginga.
„Ég fagna komu Sigrúnar Helgu og Birgis til Skaga, enda búa þau bæði yfir framúrskarandi reynslu og menntun sem mun styrkja félagið til framtíðar. Framundan eru spennandi tímar og ekki síst, ótal tækifæri fyrir félögin í samstæðunni. Ég er viss um að þau muni leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að Skagi nái markmiðum sínum. Nýtt afl á fjármálamarkaði er tilbúið til sóknar,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.
Sigrún Helga hefur frá árinu 2018 starfað sem yfirlögfræðingur VÍS. Áður starfaði hún sem lögfræðingur Eikar fasteignafélags og lögmaður og síðar meðeigandi hjá ADVEL lögmönnum. Hún er með Cand. Jur. gráðu frá Háskóla Íslands, málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og er viðurkenndur stjórnarmaður.
Birgir Örn hefur meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar hjá PayPal Europe og yfirmanns lausafjárgreiningar í PayPal samstæðunni. Þá starfaði hann einnig sem yfirmaður markaðsáhættugreiningar á fja´rfestingasviði alþjóðlega tryggingafélagsins Zurich. Hann er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum auk þess sem hann er með próf í verðbréfaviðskiptum.