Börkur Gunnarsson hefur verið settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands frá 1. september til 1. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu. Auglýsing um nýjan rektor verður birt á evrópska efnahagssvæðinu um næstu mánaðamót og stefnt er að því að ráðningu verði lokið 10 nóvember og að nýr rektor hefji störf á vormisseri.

Börkur Gunnarsson er menntaður í kvikmyndagerð frá hinum virta FAMU í Tékklandi, í tékknesku deildinni. Hann hefur að auki próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og er að ljúka MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík. Börkur hefur verið virkur bæði sem kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur síðastliðna áratugi. Hann hefur kennt reglulega við Kvikmyndaskólann í gegnum tíðina en frá árinu 2020 hefur hann verið fagstjóri í handritagerð þar sem hann hefur náð mjög góðum árangri, að því er kemur fram í tilkynningu.

Friðrik Þór Friðriksson sem verið hefur rektor Kvikmyndaskóla Íslands síðastliðin fimm ár mun láta af störfum 1. september næstkomandi. Friðrik Þór hefur á þessu tímabili leitt margvíslegar framfarir. Frá árinu 2020 hefur verið unnið að yfirfærslu skólans á háskólastig og nú í haust hefur skólinn hafið störf sem fullburða rannsóknarháskóli. Friðrik Þór er ennþá virkur í kvikmyndaframleiðslu og hyggst snúa sér að fullum krafti að kvikmyndagerð, segir í tilkynningunni.