Breytingar hafa orðið á framkvæmdastjórn malbikunarfyrirtækisins Colas en Björk Úlfarsdóttir verður sviðsstjóri gæða-, umhverfis- og öryggismála auk rannsóknar og þróunar og verður Ingvar Torfason þá sviðsstjóri tæknimála og gæðaeftirlits.

Björk er með meistaragráðu í efnaverkfræði frá KTH Royal Institute of Technology en undanfarin ár hefur hún verið deildarstjóri umhverfis-, gæða- og nýsköpunar hjá Colas.

Hún ber ábyrgð á öllu stjórnkerfi fyrirtækisins sem og allri starfsemi á rannsóknarstofu Colas. Björk er jafnframt ábyrgðarmaður umsókna um rannsóknarstyrki fyrir öll svið og deildir.

Ingvar Torfason verður sviðsstjóri tæknimála og gæðaeftirlits en hann hefur verið deildarstjóri gæðaeftirlits hjá Colas síðastliðin sjö ár en unnið alls í 20 ár við malbikun og gæðaeftirlit.

Hann hefur komið að malbikun á mörgum af stærstu verkefnum hér á landi, m.a. á öllum flugvöllum og jarðgöngum undanfarinna ára. Ingvar hefur einnig sinnt ráðgjöf og kennslu hjá Colas-fyrirtækjum erlendis og ber ábyrgð á öllu gæðaeftirliti með verkefnum Colas og samskiptum við verkkaupa á þessu sviði.

Ingvar ber enn fremur ábyrgð á allri þróun og nýsköpun sem tengist útlögn og nýjum lausnum og innleiðir tæknilausnir og nýjungar á ýmsum sviðum. Má þar nefna vetnis- og rafmagnsvæðingu, sjálfvirkni, eftirlitskerfi, gervigreind og fleira.