Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Origo sem eru í takt við endurskipulagningu félagsins til að skilja að starfsemi eignarhaldsfélagsins og rekstrarfélagsins Origo, að því er segir í fréttatilkynningu.

Örn Þór Alfreðsson verður framkvæmdastjóri orku og innviða. Örn kemur úr hlutverki framkvæmdastjóra þjónustulausna og hefur starfað hjá Origo í yfir 6 ár. Hið nýstofnaða svið samanstendur af sérfræðingum með reynslu og þekkingu á sviði innviða og orkulausna.

Ottó Freyr Jóhannsson tekur við sviði þjónustu og reksturs. Ottó er með yfir 24 ára reynslu innan fyrirtækisins en síðustu ár hefur hann leitt teymi sérfræðinga sem forstöðumaður þjónustulausna Origo.

Lóa Bára Magnúsdóttir tekur við hlutverki framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála. Hún hefur leitt markaðsstarf félagins en nú sameinast sölu- og markaðssvið.

Árni Geir Valgeirsson tók við hlutverki framkvæmdastjóra hugbúnaðarsviðs í október. Sigurður Tómasson hefur verið framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar síðan í september, Gunnar Már Petersen er framkvæmdastjóri fjármála og Dröfn Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri mannauðs.

„Með bæði nýja liðsmenn og uppröðun í lykilhlutverk styrkjum við stjórnendateymið okkar enn frekar og tryggjum að við séum í stakk búin til að takast á við áskoranir og tækifæri framtíðarinnar. Skipulagið endurspeglar þá megináherslu að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná hámarksárangri með því að hagnýta upplýsingatækni, hvort sem er á sviði framsækinna hugbúnaðarlausna, hagkvæmum rekstri öruggra tölvukerfa eða uppbyggingu á grunninnviðum samfélagsins á sviði gagnavera og orkuinnviða,“ segir Ari Daníelsson, forstjóri Origo.