Davíð Stefánsson hefur gengið til liðs við sjóðstýringarfélagið VEX þar sem hann mun starfa sem fjárfestingarstjóri í framtaksfjárfestingum.

Hann hefur starfað á fjármálamarkaði í yfir 12 ár, en síðustu sex árin hefur hann gegnt stöðu sjóðstjóra blandaðra og erlendra hlutabréfasjóða hjá Akta sjóðum. Þar áður starfaði hann hjá ráðgjafarfyrirtækinu PJT Partners í London, fyrirtækjaráðgjöf Straums fjárfestingabanka og í fyrirtækjaráðgjöf og greiningardeild Arion banka.

Davíð hefur lokið B.Sc. námi í hagfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. í alþjóðafjármálum frá HEC Paris og prófi í verðbréfaviðskiptum.

VEX rekur framtakssjóði sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar. Sjóðir VEX hafa fjárfest í fyrirtækjunum AGR, Annata, Opnum kerfum, Icelandic Provisions auk þess sem kaup í Öryggismiðstöðinni eru nú í ferli.