Dr. Óli Páll Geirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri gagnavísindateymis Snjallgagna, sem er tíu manna hugbúnaðarfyrirtæki í Reykjavík. Óli Páll hefur þar með snúið til baka í eigendateymi Snjallgagna, en hann var einn af stofnendum félagsins árið 2020.

Snjallgögn þróa hugbúnaðarlausnir sem gera fyrirtækjum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur.

„Ég stóðst ekki freistinguna að ganga aftur til liðs við Snjallgögn á þessum tímapunkti, enda þekki ég bæði starfsemina og lausnir fyrirtækisins vel. Ég er svo lánsamur að hafa fengið að leiða uppbyggingu á nokkrum gagnavísindateymum í atvinnulífinu undanfarin ár og stuðlaði að gagnadrifinni menningu á hverjum stað,“ segir Óli Páll.

Viðskiptavinir Snjallgagna eru meðal annars Arctic Adventures, Bónus, Íslandshótel, Nova, Rarik og Sýn. Lykilvara Snjallgagna er alhliða gervigreindarkerfið Context Suite sem inniheldur meðal annars þjónustugreind, eftirspurnargreind og snjallmennið Mími.

Óli Páll leiddi síðast gagnavísindateymi Lucinity, sem hafði það hlutverk að þróa gervigreindarlíkön og aðferðir sem auðvelda fjármálafyrirtækjum að taka ákvarðanir í baráttunni gegn peningaþvætti.

Hann starfaði áður sem gagnastjóri Reykjavíkurborgar á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar byggði hann upp og leiddi skrifstofu gagnaþjónustu til að styðja við gagnadrifna ákvarðanatöku innan borgarinnar og skapa virði úr gögnum hennar.

Þar að auki sat hann einnig í framkvæmdastjórn sviðsins og í aðgerðastjórn stafrænna umbreytinga hjá borginni. Þar áður var Óli Páll sérfræðingur í gagnavísindum hjá Landsbankanum. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í stærðfræði frá sama skóla. Samhliða fyrri störfum hefur Óli Páll starfað sem aðjúnkt í tölfræði við Háskóla Íslands.

„Við erum í hreinskilni sagt alveg himinlifandi að fá Óla Pál aftur til liðs við okkur. Óli Páll er ekki bara þrautreyndur leiðtogi gagnateyma og með tilkomumikinn starfsferil, heldur er hann einnig stefnumótandi sérfræðingur í gagnavísindum. Óli Páll smíðar háþróuð tölfræðilíkön og hagnýtir gervigreind eins og að drekka vatn og er því sannarlega dýrmæt viðbót við hópinn okkar,” segir Stefán Baxter, forstjóri og einn stofnenda Snjallgagna.