Eggert Þór Kristófersson fyrrum forstjóri Festis hefur verið ráðinn í stöðu forstjóra Landeldis hf. og hefur þar störf næstkomandi miðvikudag. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Eggert var óvænt sagt upp störfum af stjórn Festar nú í sumarbyrjun eftir sjö ár í starfi, en málið olli töluverðu fjaðrafoki og leiddi til hluthafafundar hvar þremur af fimm stjórnarmönnum var skipt út.
Eggert tekur við af Halldóri Ólafi Halldórssyni sem sinnt hefur starfinu samhliða stjórnaformennsku félagsins. Haft er eftir Halldóri að ráðning Eggerts sýni að Landeldi ætli sér stóra hluti, og hafi nú tryggt sér allar meginstoðir sem til þurfi til að byggja upp landeldi á stórum skala.
Stefna að 33 þúsund tonnum 2028
Félagið var stofnað árið 2017 og er í eigu alls 10 hlutafélaga. Stoðir eru þar í fararbroddi með þriðjungshlut sem sjóðurinn keypti í fyrra, en næstir eru Framherji ehf. með einn sjötta hlut og Fylla ehf. með 9,6%.
Landeldi rekur í dag seiðaeldisstöð í Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn. Ríflega 2 milljónir laxa eru nú í eldi og er heildarlífmassi áætlaður 500 tonn næstu áramót, en stefnt er á 33 þúsund tonna ársframleiðslu árið 2028.
Hjá félaginu starfa um 25 manns og um 50 hjá undirverktökum að því er fram kemur í tilkynningunni. Samkvæmt ársreikningi síðasta árs nam veltan rúmum 80 milljónum í fyrra, en aðeins 1,4 milljónum árið áður, og aðrar rekstrarstærðir margfölduðust að sama skapi, þar með talið tapið sem fór úr 17 milljónum í 183. Vaxtagjöld námu 104 milljónum í fyrra og annar rekstrarkostnaður 111, en launagjöld 47.
Fjárfestu fyrir milljarð
Félagið er vel fjármagnað með eignir upp á ríflega 2,6 milljarða króna og 80% eiginfjárhlutfall eftir 1,8 milljarðs króna hlutafjáraukningu á síðasta ári.
Ný langtímalán voru tekin fyrir 690 milljónir á árinu en 480 milljóna króna umbreytanlegu skuldabréfi var síðar breytt í hlutafé, með þeim afleiðingum að bókfærð vaxtagjöld vegna bréfsins námu 90 milljónum á árinu en langtímaskuldir voru aðeins 187 milljónir í árslok.
Alls var fjárfest fyrir 931 milljón króna og handbært fé frá rekstri var neikvætt um 250 milljónir.