Elva Rakel Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Festu en hún tekur við starfinu af Hrund Gunnsteinsdóttur sem hefur leitt störf Festu síðastliðin fjögur ár.

„Það er sannkallaður draumur að fá að leiða starf Festu um þessar mundir því fyrirtæki og samfélagið allt er svo sannarlega búið að reima á sig hlaupaskóna. Ég finn það svo vel að við erum tilbúin í sjálfbærnivegferðina og margir eru þegar byrjaðir að spretta úr spori,” segir Elva Rakel.

Elva kemur frá Umhverfisstofnun þar sem hún hefur síðustu ár stýrt einu stærsta sviði Umhverfisstofnunar, sem snýr að málefnum loftslags og hringrásar. Þá hefur Elva einnig starfað sem framkvæmdastjóri umhverfismerkisins Svansins síðustu ár og hefur stutt fyrirtæki við að sýna fram á umhverfislegan árangur.

Fyrsta verkefni Elvu hjá Festu var að fara til Grænlands í lok sumars þar sem hún kynnti sér meðal annars áhrif loftslagsbreytinga með vísindafólki og leiðtogum víða að. Með Elvu í för voru þau Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, Tómas N. Möller, formaður Festu og Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.