Erla Skúladóttir hefur verið ráðin sérfræðingur á sviði hugverkaréttar hjá Auðnu tæknitorgi en hún hefur setið í stjórn Auðnu frá stofnun þess.

Erla hefur á undanförnum árum lagt áherslu á vernd og hagnýtingu hugverkaréttar í lögmannsstörfum sínum og sem stjórnarformaður nýsköpunarfyrirtækisins Lauf forks. Erla hefur reynslu af fjármögnun sprotafyrirtækja og hefur um nokkurra ára skeið stundað rannsóknir og kennslu við lagadeild Háskóla Íslands í hugverkarétti á sviði iðnaðar, með áherslu á einkaleyfa- og vörumerkjarétt.

Hún býr einnig að reynslu úr stoðkerfi nýsköpunar, en hún starfaði á nýsköpunarskrifstofu iðnaðarráðuneytisins þegar Vísinda- og tækniráð var stofnað og samkeppnissjóðir stokkaðir upp.

Erla er með embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands og framhaldsgráðu í evrópskum hugverkarétti frá Stokkhólmsháskóla.

Erla Skúladóttir:

„Sú þekking sem verður til innan íslenska vísindasamfélagsins felur í sér dýrmæta auðlind sem er mikilvægt að virkja. Þar gegnir Auðna tæknitorg lykilhlutverki. Það eykur verulega líkur á árangri ef hugverkarétturinn er hugsaður inn í hvert þrep frá því hugmynd kviknar þar til fótfesta næst. Það er þetta sem mér finnst svo spennandi, að styðjast við lögfræðina til þess að búa til verðmæti úr vísindum. “

Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs:

„Það er happafengur fyrir okkur hjá Auðnu að fá Erlu til liðs við okkur, hún mun veita vísinda- og tæknifrumkvöðlum landsins ráð og aðstoð á sviði hugverkaréttar, sem er svo oft forsenda fyrir hagnýtingu hugvits og fjárfestingu í vísindalegri nýsköpun. Auðna framkvæmir greiningar á vænlegum verkefnum úr vísindageiranum, sinnir frumkvöðlaþjálfun og aðstoðar vísindamenn og konur við þróun lausna við áskorunum mannkyns.

Vísindin eru ein mikilvægasta uppspretta slíkra lausna og Auðna er farvegurinn fyrir vísindalega nýsköpun út í atvinnulífið og samfélagið. Erla þekkir vel til starfsemi Auðnu og er frábær viðbót við teymið okkar.“