Þetta leggst mjög vel í mig og ég er tilbúin til að takast á við krefjandi verkefni," segir Hrönn Greipsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. „Helsta áskorunin er að komast aftur á þann stað að hittast og tala saman. Það er mín upplifun að fólk sé komið með nóg af Teams fundum og rafrænum samskiptum."
Hrönn segir hina ýmsu nýsköpunarviðburði, sem var aflýst eða haldnir rafrænt í kórónuveirufaraldrinum, geta skipt sköpum fyrir frumkvöðla. „Nú í maí er nýsköpunarvikan haldin, en þar verða margir spennandi viðburðir þar sem er gott tækifæri fyrir frumkvöðla að hittast."
Hrönn hefur mikla reynslu af því að starfa með frumkvöðlum, en frá árinu 2015 hefur hún stýrt fjárfestingarfélaginu Eldey. Félagið fjárfesti í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og var í stýringu hjá Íslandssjóðum. „Það má segja að afþreyingargeirinn sé nýsköpunarhorn ferðaþjónustunnar. Flest afþreyingarfyrirtæki spretta upp úr einhvers konar nýsköpun."
Hrönn er frá Geysi í Haukadal og á hús á svæðinu sem fjölskyldan nýtir allan ársins hring. „Það má segja að ferðaþjónustan hafi komið með móðurmjólkinni og ég byrjaði ung að starfa við hana." Hrönn er gift Sigurði Skagfjörð Sigurðssyni, á þrjár dætur, eitt barnabarn og hund og kött sem er á fimmtánda aldursári.
Hrönn segist afar hreyfiglöð manneskja. „Ég hleyp og hjóla mikið á sumrin en á veturna reyni ég að komast sem oftast á gönguskíði. Ég er mest fyrir náttúruhlaup og ríkishringurinn í Heiðmörk er í miklu uppáhaldi. Ég geri líka mikið af því að hlaupa í sveitinni, til dæmis upp í Haukadal sem er algjör náttúruparadís."
Nánar er rætt við Hrönn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir
Tölublöð
, aðrir geta skráð sig í
áskrift hér
.