Fannar Örn Þorbjörnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Terra Eininga. Í fréttatilkynningu segir að Fannar hafi starfað sem stjórnandi síðastliðin fimmtán ár. Hann var forstöðumaður viðskiptakerfa hjá Vodafone til ársins 2017 en frá þeim tíma hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Securitas.

Fannar er iðnaðartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og einnig með meistaragráðu í stjórnun og forystu frá Háskólanum á Bifröst.

Fannar er fyrrum handboltaleikmaður en hann ólst upp hjá Val og lék lengst af með Val og ÍR. Einnig spilaði Fannar í þrjú ár í Danmörku með Fredericia HK.

Terra Einingar, dótturfélag Terra umhverfisþjónustu, sérhæfir sig í sölu og leigu á húseiningum sem hægt er að púsla saman og skapa rými undir fjölbreytta starfsemi. Húseiningarnar má nota í ýmsum tilgangi, þar á meðal sem skólastofur, vinnuaðstaða, íbúðir, gistieiningar ásamt salernislausnum. Einnig bjóða Terra Einingar upp á geymslulausnir í formi skipagáma, hvort sem það er skemmri eða lengri tíma geymsla á lagervörum, búslóðum og árstíðabundnum vörum.