Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems hefur ráðið til sín fimm sérfræðinga. Félagið segir markmiðið með ráðningunum vera að styðja betur við þróun hugbúnaðarlausna fyrirtækisins en Tern Systems þróar kerfi fyrir stjórn flugumferðar sem eru í notkun víða um heim.
Hjá Tern Systems starfa yfir 80 manns en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Ungverjalandi og Póllandi.
Suzette Cuizon er ráðin í vöruþróunarteymi Tern Systems sem sérfræðingur í gæðastjórnun. Suzette hefur í yfir tvo áratugi unnið að hugbúnaðarþróun hjá fyrirtækjum eins og Lexmark, Stjörnu-Oddi, Íslandsbanki, Marel, LS Retail and Controlant. Suzette er með BSc gráðu í tölvuverkfræði og mastersgráðu í upplýsingastjórnun.
Jóhann Friðriksson er tölvunarfræðingur með yfir 22 ára starfsreynslu innan hugbúnaðar- og hátækniþróunar. Hann hefur unnið hjá Silicon Labs, Foss Analytics, Teledyne og Gavia. Jóhann verður sérfræðingur í vöruþróunarteymi Tern Systems.
Sunna Mímisdóttir hefur á síðustu 10 árum unnið sem forritari meðal annars hjá Rapyd, Controlant, WuXiNextCode og Meniga en sérsvið hennar eru sjálfvirkar prófanir. Sunna er ráðin í vöruþróun sem sérfræðingur í sjálfvirkum prófunum sem eiga að tryggja skalanleika, gæði og áreiðanleika kerfa Tern Systems.
Noémi Pap bætist við hönnunarteymi Tern Systems og mun vinna að þróun notendaviðmóts fyrir Orion og Nexus kerfin. Noémi hefur reynslu sem hönnuður en hún er einnig landslagsarkitekt. Hún verður með aðstöðu á skrifstofu Tern Systems í Búdapest.
Íris Dögg Skarphéðinsdóttir er menntaður tölvunarfræðingur og á að baki 6 ára reynslu í þróun tölvuleikja en hún kemur til Tern Systems frá CCP Games þar sem hún vann sem tölvugrafíksforritari. Íris mun vera hluti að vöruþróunarteymi Orion Driver þar sem hennar sérfræðiþekking um leikjavélar mun nýtast vel við að þróa hermi fyrir flugvallarumferð í Unreal Engine.
„Við hjá Tern Systems erum feikilega ánægð að fá þetta reynslumikla fólk til liðs við okkur og það eru spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu á erlendum mörkuðum en við höfum fundið fyrir auknum áhuga á kerfunum okkar erlendis. Ég býð þau Suzette, Jóhann, Írisi, Sunnu og Noémi hjartanlega velkomin til starfa,” segir Magnús Þórðarson, framkvæmdastjóri Tern Systems.
Tern Systems hefur í um 30 ár þróað hugbúnaðarlausnir fyrir stjórn flugumferðar en lausnir þróaðar af Tern Systems eru nú í notkun í Evrópu, Asíu og Afríku. Hugbúnaðarlausnir Tern Systems byggja á löngu samstarfi við Isavia ANS sem sér um stjórnun flugumferðar yfir Norður Atlantshafið.