Hönnunar- og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hefur ráðið til sín fjóra nýja sérfræðinga; Önnu Gyðu Pétursdóttur verkefnastjóra, Tinnu Hallsdóttur viðmótshönnuð ásamt forriturunum Jóhann Guðmundsson og Hebu Farestveit.

Anna Gyða Pétursdóttir er nýr teymisþjálfari hjá Kolibri en hún hefur áður fengist við verkefnastjórnun í upplýsingatækni. Anna kemur til Kolibri frá Össur þar sem hún starfaði sem verkefnastjóri hjá alþjóðlegri verkefnastofu fyrirtækisins. Þar á undan starfaði hún sem deildarstjóri verkefnastýringar og sem sérfræðingur á alþjóðasviði hjá Valitor. Anna er með B.Sc. í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og MPM frá HR. Hún er í sambúð með Ingvari Ara Arasyni húsasmið, og saman eiga þau tvo stráka.

Jóhann Guðmundsson hefur verið ráðinn sem forritari hjá Kolibri. Hann er með B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands og lauk burtfararprófi frá FÍH á jazzgítar. Jóhann er með yfir 10 ára reynslu af framendaforritun, og hefur starfað hjá TM, WOW, Lucinity og nú síðast hjá Vettvangi. Hann er í sambúð með Ástríði Halldórsdóttir, félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg og saman eiga þau tvö börn.

Heba Farestveit Úlfarsdóttir hefur verið ráðin sem forritari hjá Kolibri. Hún starfaði áður sem forritari hjá Vettvangi, Hugsmiðjunni og Skapalóni og útskrifaðist úr Vefskólanum þar sem hún stundaði nám í Vefþróun. Eiginmaður Hebu er Steinar Ingi Farestveit, hönnunarstjóri, og eiga þau saman tvo syni.

Tinna Hallsdóttir kemur til starfa sem hönnuður hjá Kolibri eftir að hafa verið í námi hjá Vefskólanum. Áður vann hún sem margmiðlunarhönnuður og ljósmyndari hjá University of Birmingham. Hún er með B.A. gráðu í margmiðlun frá Art University Bournemouth.

Skúli Valberg, leiðtogi hjá Kolibri:

„Við leggjum okkur öll fram að taka vel á móti nýju fólki í kúltúrinn okkar sem byggir á tilgangi Kolibri að þróa það besta í fólki og fyrirtækjum. Við erum í starfsemi sem byggist á að endurskoða öll norm um hvernig við vinnum og hvernig hægt er að ná árangri í nýjum veruleika stafræna heimsins. Aðferðir, stjórnun og nálgun frá iðnbyltingum síðustu alda eru löngu úreltar þó mörg gildi séu klassísk. Hugtökin velsæld og heilbrigði í sem breiðasta skilningi þeirra eru okkur hugleikin þessa dagana. Líða vel, gera vel - og gera það gott. Við köllum það, að blómstra.”

Kolibri sérhæfir sig í að aðstoða viðskiptavini með stafræna væðingu þjónustu sinnar. Meðal viðskiptavina eru TM, Dómsmálaráðuneytið, Stafrænt Ísland, Abler og fleiri.