APRÓ, móðurfélag Andes og Prógramm, hefur ráðið til sín fjóra stjórnendur á sviði hugbúnaðarþróunar, reksturs og gervigreindar. Þetta er liður í að styrkja og auka umfang félagsins í kjölfar væntanlegrar sameiningar félaganna tveggja.
„Það er mikill fengur að fá þessa reynslumiklu og drífandi leiðtoga til okkar. Öll búa þau yfir mikilvægri hæfni og þekkingu sem bæði styrkir þjónustuna en veitir okkur einnig tækifæri til að hækka rána enn frekar," segir Hlöðver Þór Árnason, framkvæmdastjóri APRÓ.
Heiðar Eldberg Eiríksson hefur tekið við sem teymisleiðtogi hjá APRÓ. Áður starfaði Heiðar m.a. hjá Controlant þar sem hann tók þátt í að leiða AWS-skýjavegferð fyrirtækisins samtímis sem heimsfaraldurinn geisaði. Heiðar hefur einnig starfað hjá CCP Games þar sem hann hafði umsjón með skýjahýsingum. Að auki á Heiðar að baki feril í kvikmyndagerð og hefur lokið diplómanámi frá Kvikmyndaskóla Íslands.
Lena Karen Andreasdóttir kemur til APRÓ í stöðu teymisleiðtoga. Áður starfaði Lena Karen hjá Origo fyrst um sinn sem gagnagrunnssérfræðingur en síðar sem hópstjóri kerfisreksturs. Samhliða námi starfaði Lena Karen sem flugfreyja hjá Icelandair. Lena er með B.Sc.-gráðu í rekstrarverkfræði og M.S.-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Þá hefur hún einnig lokið réttindum í verðbréfaviðskiptum.
Helgi Páll Helgason er leiðtogi gervigreindar hjá APRÓ. Hann lauk doktorsprófi í almennri gervigreind frá HR árið 2013. Þá lauk hann B.Sc. og M.Sc. í tölvunarfræði við HÍ. Helgi Páll hefur mikla reynslu á sviði gervigreindar og hugbúnaðarþróunar en af fyrri störfum má nefna stöðu tæknistjóra hjá Activity Stream, ásamt því að hafa starfað hjá Verifone og hjá Kaupþingi.
Páll Jónsson hefur hafið störf sem forstöðumaður viðskiptaþróunar APRÓ. Áður en Páll gekk til liðs við APRÓ gegndi hann stöðu forstöðumanns upplýsingatækni og fjölmiðlalausna hjá Sýn hf. frá árinu 2022. Fyrir þann tíma bjó Páll í Bretlandi þar sem hann starfaði hjá Sky Global sem Media Enterprise arkitekt og leiddi þar umbreytingar á tækniumhverfi Sky yfir í AWS-skýjaumhverfið. Páll hefur einnig starfað hjá Red Bee Eriksson og BBC við að leiða umbreytingar og innleiðingar á nýjum tækniumhverfum. Páll hefur lokið MBA-gráðu frá Oxford Brookes University, ásamt námi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og einnig tekið gráðu í Broadcast Engineering við Spartan College í Oklahoma í Bandaríkjunum.