Gengið hefur verið ráðningu fjögurra viðskiptastjóra í fyrirtækjatryggingateymi Arion banka en teymið miðlar vörum Varðar trygginga, dótturfélags bankans, og þjónar þeim fyrirtækjum sem tryggja hjá félaginu.
Sigurður Ingi Viðarsson er með yfir 16 ára starfsreynslu af fyrirtækjatryggingum eftir að hafa starfað bæði hjá VÍS og Tryggingamiðstöðinni þar sem hann sérhæfði sig í þjónustu við sjávarútveg og iðnað.
Undanfarin 10 ár hefur Sigurður verið framkvæmdastjóri Ecomar, og var hann einn af stofnendum fyrirtækisins, sem sérhæfir sig í efnavörum og hreinsi- og þrifalausnum fyrir sjávarútveg og iðnað.
María Björk Ólafsdóttir kemur úr hugbúnaðargeiranum en hún hefur starfað sem verkefna- og viðskiptastjóri hjá Advania síðastliðin fimm ár. Þar áður starfaði hún með ýmsum nýsköpunarfyrirtækjum.
Hún hefur góða þekkingu á fyrirtækjamarkaði og mikla reynslu af sölumálum og viðskiptastjórnun fyrirtækja.
Arnar Jón Óskarsson mun bæði þjónusta fyrirtæki og einstaklinga á Austurlandi þegar kemur að tryggingum Varðar í góðu samstarfi við öflugt útibú bankans á Egilsstöðum. Arnar Jón þekkir svæðið vel en hann starfaði áður sem útibússtjóri Sjóvá á Egilsstöðum.
Árni Henrý Gunnarsson kemur frá VÍS þar sem hann hefur starfað sem viðskiptastjóri stærri fyrirtækja síðastliðin átta ár. Hann var áður hjá Sjóvá og hefur yfirgripsmikla þekkingu á tryggingum og mikla reynslu af því að greina tryggingaþarfir og þjóna stærri fyrirtækjum.