Hildur Einarsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Advania á Íslandi, stærsta upplýsingatæknifyrirtækis landsins. Hún tekur við starfinu af Ægi Má Þórissyni, sem gegnt hefur starfinu í tæp tíu ár en tekur nú við öðru lykilhlutverki í framkvæmdastjórn Advania-samstæðunnar.
Hildur lét fyrr í þessum mánuði af störfum sem framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs hjá Emblu Medical, móðurfélagi Össurar, þar sem hún starfaði í 16 ár. Hún hefur reynslu og þekkingu á nýsköpun, stefnumótun og alþjóðlegum sölu- og markaðsmálum.
Hún er rafmagns- og tölvuverkfræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í læknisfræðilegri verkfræði frá Imperial College London. Hildur hefur einnig lokið stjórnendanámi við Harvard Business School.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til þess að starfa fyrir jafn metnaðarfullt félag og Advania. Ég er full tilhlökkunar að kynnast nýjum samstarfsfélögum og þeim fjölmörgu viðskiptavinum sem nýta sér lausnir og þjónustu Advania,“ segir Hildur.
„Upplýsingatækni er í gríðarlegum vexti og heldur áfram að gegna mikilvægu hlutverki víðsvegar í samfélaginu. Tækifærin til framþróunar eru óþrjótandi; á sviðum gervigreindar, stafrænnar þjónustu, sjálfbærni og net- og rekstraröryggismála svo örfá dæmi séu nefnd.“
Ægir Már leiðir mannauðs- og vinnustaðamenningu
Við ráðninguna stígur Ægir Már Þórisson úr forstjórastólnum og tekur að sér að leiða mannauðs- og vinnustaðamenningu félagsins þvert lönd og markaði. Starfsmenn Advania eru nú ríflega fimm þúsund talsins, á 53 starfsstöðvum í níu löndum.
„Uppgangur félagsins hefur verið ótrúlegur undanfarin ár og Advania er orðið stærsta óskráða upplýsingatæknifélag Evrópu, með ársveltu upp á 250 milljarða króna,“ segir Ægir.
„Vöxturinn byggir alfarið á starfsfólkinu, vinnulaginu okkar og einstakri fyrirtækjamenningu. Í mínum huga er ekkert mikilvægara en að hlúa áfram að mannauðnum og búa svo um hnútana að fólk fái notið hæfileika sinna. Þannig heldur félagið okkar áfram að stækka og dafna um ókomna tíð. Ég hlakka svo sannarlega til þess að taka við nýju hlutverki.“
Hjá Advania á Íslandi starfa um 600 sérfræðingar á átta starfsstöðvum við að einfalda dagleg störf viðskiptavina með snjallri nýtingu á upplýsingatækni. Advania á Íslandi er hluti af Advania-samstæðunni sem er meðal umsvifamestu upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum.