Gagnavers- og ofurtölvufyrirtækið atNorth hefur ráðið Erling Freyr Guðmundsson, sem nýverið lét af störfum sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, í starf framkvæmdastjóra rekstrar (e. Chief Operations Officer).
Hann var framkvæmdastjóri Ljósleiðarans frá ársbyrjun 2015. Áður stýrði Erling fjarskipta- og tæknisviði fjölmiðlafyrirtækisins 365 og var einn stofnenda Industria, sem vann að nýsköpun fyrir sjónvarps- og fjarskiptamarkaðinn.
Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá ráðningunni segir að hún sé liður í þeirri vegferð atNorth að styrkja enn frekar stjórnendateymi félagsins. „Eftirspurn eftir þjónustu atNorth hefur aukist hratt á undanförnum árum, enda stuðlar þjónustan að hagkvæmni í rekstri og aukinni sjálfbærni hjá þeim sem færa rekstur sinna tölvukerfa og gagnavistun til atNorth. Fyrirtækið hefur brugðist við aukinni eftirspurn með stækkun gagnavera sinna og byggingu nýrra hér og erlendis, auk þess sem atNorth keypti tvö finnsk gagnaver í upphafi árs og er að reisa það þriðja,“ segir í fréttatilkynningu.
Erling hafi starfað við uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfa og tengdrar þjónustu í 25 ár, bæði á Íslandi og erlendis.
„Erling Freyr Guðmundsson er reynslubolti í fjarskiptainnviðum og við fögnum því að fá hann í okkar hóp,” segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth. „Erling býr yfir tæknilegri sérþekkingu og mikilli rekstrarreynslu, þar sem góð þjónusta við viðskiptavini hefur verið í forgrunni. Það fellur vel að gildum og vaxtaráætlunum atNorth, nú þegar umsvifin eru að vaxa hratt.”
„Það er spennandi að ganga til liðs við atNorth og taka þátt í þeirri spennandi vegferð sem félagið er á,“ segir Erling. „Aukin eftirspurn eftir þjónustu atNorth skýrist m.a. af aukinni notkun gervigreindar, sem reiðir sig á öfluga tæknilega innviði auk þess sem krafan um sjálfbæran rekstur er mikilvæg. Að því leyti er samkeppnisstaða atNorth sterk, vaxtartækifærin eru mörg og eigendur félagsins eru afar metnaðarfullir. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í vegferðinni sem félagið er á.“