Guðmundur Ómar Hafsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur gengið til liðs við Novum lögfræðiþjónustu. Hann var áður einn eigenda Lögmannsstofunnar Fortis.
Guðmundur Ómar útskrifaðist úr lagadeild HÍ árið 2002 og lauk LL.M námi í Sjórétti frá Lundarháskóla árið 2012. Hann fékk réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2004 og fyrir Hæstarétti árið 2010.
Guðmundur Ómar hefur mikla reynslu af lögfræðiráðgjöf við fyrirtækja og einstaklinga. Helstu sérsvið Guðmundar Ómars eru vátrygginga- og skaðabótaréttur, fasteignaréttur, vinnuréttur og málflutningsstörf.
Novum lögfræðiþjónusta er ung lögmannsstofa sem stofnuð var í ágúst 2019 og veitir fyrirtækjum og einstaklingum fjölbreytta lögfræðiþjónustu.
Ólafur Lúther Einarsson, lögmaður og framkvæmdastjóri Novum:
„Við erum mjög ánægð að Guðmundur Ómar hafi ákveðið að koma til okkar og taka virkan þátt í uppbyggingu Novum. Með honum kemur mikil þekking og reynsla á mikilvægum sviðum lögfræðinnar. Novum hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár og með komu Guðmundar Ómars getum við veitt viðskiptavinum okkar enn víðtækari og betri þjónustu.”