Icelandair hefur ráðið Guðmund Tómas Sigurðsson sem nýjan flugrekstrarstjóra félagsins. Guðmundur tekur við starfinu af Hauki Reynissyni sem hefur sinnt því frá árinu 2018 en Haukur mun áfram starfa hjá félaginu sem flugstjóri.
Guðmundur Tómas hefur stýrt þjálfunardeild Icelandair frá árinu 2021 eftir að hafa starfað til margra ára sem kennari og þjálfunarflugstjóri hjá félaginu.
Hann hóf upphaflega störf sem flugmaður hjá Icelandair 2005 og starfaði svo hjá flugfélaginu Cargolux á árunum 2010-2014 áður en hann sneri aftur til starfa hjá Icelandair.
„Guðmundur Tómas hefur fjölbreytta reynslu innan Icelandair og þekkir starfsemina mjög vel. Reynsla hans og þekking munu án efa nýtast vel í þessu yfirgripsmikla starfi. Guðmundur tekur við góðu búi frá Hauki Reynissyni sem sinnt hefur starfinu um sex ára skeið,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Á árunum 2015-2021 starfaði Guðmundur einnig sem sérfræðingur í afkastagetu flugflota Icelandair þar sem hann vann náið með Boeing og IATA.
„Ég er mjög spenntur fyrir nýju hlutverki innan þessa frábæra félags og stoltur af því að vera falin sú mikla ábyrgð sem í því felst. Það eru mjög spennandi tímar í fluggeiranum og til framtíðar sjáum við mörg fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem tengjast meðal annars flotaendurnýjun, tækniframförum og sjálfbærni,“ segir Guðmundur Tómas.