Gunnar Sverrir Gunnarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra COWI á Íslandi, sem áður hét Mannvit. Hann hefur starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra síðastliðna þrjá mánuði.

„Gunnar Sverrir Gunnarsson hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á íslenskum markaði og hefur gegnt lykilhlutverki í sameiningu Mannvits og COWI. Á undanförnum árum hefur hann sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika og byggt upp traust sambönd við viðskiptavini okkar. Ég er sannfærður um að hann muni leiða COWI á Íslandi til áframhaldandi vaxtar og velgengni,“ segir Michael Bindseil, framkvæmdastjóri hjá COWI.

Gunnar Sverrir er með bakgrunn í véla- og iðnaðarverkfræði og hefur starfað hjá Mannviti frá árinu 1998, fyrir sameiningu þess við COWI árið 2023. Síðan þá hefur hann gegnt ýmsum lykilstöðum, meðal annars stöðu sviðsstjóra orku og setið í framkvæmdastjórn.

„Ég er mjög spenntur að taka þessari áskorun. Hjá COWI leggjum við mikla áherslu á að skilja þarfir viðskiptavina og náið samstarf við skrifstofur okkar um allan heim. Við, ásamt viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum á Íslandi, getum nýtt okkur sérfræðiþekkingu COWI en þar starfa yfir 7.500 sérfræðingar,” segir Gunnar Sverrir.

COWI á Íslandi hefur unnið að verkefnum á borð við Hellisheiðarvirkjun, Hvammsvirkjun og gagnaver Verne í Reykjanesbæ.

„COWI á Íslandi býr yfir öflugri sérfræðiþekkingu á sviði vatnsafls og jarðvarma og við erum fús til að nýta þá sérþekkingu víða erlendis til að aðstoða samfélög í átt að sjálfbærari framtíð. Einnig munu viðskiptavinir okkar á Íslandi njóta góðs af sérfræðiþekkingu COWI á sviði innviða, sjálfbærrar orku, bygginga og iðnaðar,“ segir Michael.

Gunnar Sverrir leggur áherslu á að tryggja stöðu COWI á íslenskum markaði samhliða þátttöku í stórum alþjóðlegum verkefnum:

„COWI hefur skýra sýn þegar kemur að þörfum viðskiptavina og gæði verkefna. Það er einstakt að vera hluti af leiðandi alþjóðlegu fyrirtæki sem á í nánu samstarfi á milli landa, samhliða því sem við styrkjum stöðu okkar með því fjölga sérfræðingum hér á landi og eflum um leið verðmæta sérþekkingu.“

COWI er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku. Mannvit sameinaðist COWI árið 2023. Félagið segir að það hafi í för með sér að það geti boðið íslenskum viðskiptavinum sínum aukna þjónustu og sérfræðiþekkingu til að vinna verkefni frá frumhugmynd til verkloka.

Sérfræðingar COWI telja um 7.500 aðila að meðtöldum 260 einstaklingum á Íslandi og nær þjónustusviðið yfir verkfræði, arkitektúr, orku og umhverfismál

Höfuðstöðvar COWI á Íslandi að Urðarhvarfi 6
© Aðsend mynd (AÐSEND)