Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Herdísi Steingrímsdóttur, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School, í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands til næstu fimm ára. Herdís tekur við af Katrínu Ólafsdóttur, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, sem setið hefur í peningastefnunefnd í tíu ár, en það er hámarksskipunartími í nefndinni.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Herdís er með doktorspróf í hagfræði frá Columbia háskólanum í New York og meistarapróf í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum frá London School of Economics. Rannsóknir Herdísar snúa að vinnumarkaðshagfræði, líkt og Katrín hefur sérhæft sig í, og er sögð margverðlaunuð fyrir störf sín. Þá er Herdís meðlimur og umsjónarmaður ýmissa rannsóknasetra í Kaupmannahöfn sem greina hagfræðileg úrlausnarefni á borð við varða lífeyrismál, ójöfnuð og hagfræði heimilanna.

Peningastefnunefndar ber m.a. ábyrgð á að viðhalda verðstöðugleika en verðbólgumarkmið nefndarinnar er 2,5%. Peningastefnunefnd tekur ákvörðun um stýirvexti, viðskipti við lánastofnanir og önnur þrautavaralán, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði.

Aðrir nefndarmenn í peningastefnunefnd eru Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningamála, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Gylfi Zöega, prófessor við Háskóla Íslands. Gylfi var endurskipaður í nefndina í febrúar árið 2018 og því má gera ráð fyrir að skipunartími hans renni út eftir ár.