Hjörtur Hilmarsson, stofnandi 14islands, hefur bæst við í stjórn Revera en hann hefur víðtæka reynslu af stafrænni vöruþróun. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri vefstofunnar 14islands sem hefur unnið með Google, Spotify, Adidas og Disney.

Revera sérhæfir sig í þróun eigin hugbúnaðarvara og lausna fyrir fyrirtæki og stofnanir, með áherslu á gagnadrifna vöruþróun, nýsköpun og sérsmíði.

„Hjörtur kemur með dýrmæta innsýn í hvernig byggja má upp vörumerki, vörur og stafræna upplifun sem stenst alþjóðlegan samanburð. Hann hefur sjálfur farið þessa vegferð og við sjáum skýrt hvernig hans reynsla nýtist okkur í næstu skrefum. Ekki skemmir fyrir hvað hann hefur mikinn áhuga á gögnum,“ segir Birgir Hrafn Birgisson, framkvæmdastjóri Revera.

Hlutverk Hjartar er að veita ráðgjöf varðandi stefnu félagsins, strategíu og vöruþróun en meðal verkefna félagsins eru sérsniðin bókunarkerfi fyrir ferðaiðnaðinn og Lesa – stafrænn lestrarleikur sem byggir á aðferðafræði Duolingo.