Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa Hrafnhildi Arnkelsdóttur í embætti hagstofustjóra frá og með 1. nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Embættið var auglýst laust til umsóknar 13. ágúst síðastliðinn og bárust alls 14 umsóknir en þrír drógu umsókn sína til baka.

Ólafur Hjálmarsson, sem hafði gegnt embætti hagstofustjóra samfellt frá árinu 2008, hætti hjá Hagstofu Íslands fyrr á árinu.

Í samræmi við ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, skipaði forsætisráðherra þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd til að leggja heildarmat á hæfni umsækjenda. Hæfnisnefndin mat þrjá umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embætti hagstofustjóra.

Að loknum viðtölum við þá þrjá umsækjendur sem hæfnisnefndin mat mjög vel hæfa og eftir heildarmat á gögnum málsins var það niðurstaða forsætisráðherra að Hrafnhildur Arnkelsdóttir væri hæfust til að gegna embætti hagstofustjóra.

Hrafnhildur er með Ph.Lic. gráðu í líftölfræði frá Gautaborgarháskóla, BSc gráðu í tölfræði og kerfisfræði frá Lundarháskóla og BSc gráðu í iðjuþálfun frá Vårdhögskolan í Gautaborg.

Hrafnhildur hefur starfað sem stjórnandi hjá Hagstofu Íslands frá árinu 2005, sem sviðsstjóri félagsmálasviðs frá árinu 2014 en áður sem sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs og deildarstjóri launa- og kjaramáladeildar. Þar áður var Hrafnhildur m.a. forstöðumaður kjararannsóknarnefndar í 8 ár.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hefur verið skipuð hagstofustjóri frá og með 1. nóvember næstkomandi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)