Auðna tæknitorg hefur ráðið Ingunni Sigurpálsdóttur í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hún tekur við starfinu af Einari Mäntylä, sem kom að stofnun Auðnu á árinu 2019 og hefur unnið að uppbyggingu fyrirtækisins í sex ár.
Ingunn tók við starfinu þann 1. maí sl. en áður en hún tók við sem framkvæmdastjóri starfaði Ingunn sem markaðs- og fjármálastjóri Auðnu.
„Það er bæði mikill heiður og spennandi áskorun að taka við starfi framkvæmdastjóra Auðnu tæknitorgs. Félagið hefur á undanförnum árum byggt upp mikilvæga innviði sem styðja við nýsköpun á Íslandi og ég hlakka til að vinna með frábæru teymi og samstarfsaðilum til að efla þetta starf enn frekar,“ segir Ingunn.
Auðna þjónustar íslenskt nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi með því að aðstoða háskóla- og vísindasamfélagið við að skila uppfinningum og hagnýtanlegum rannsóknarniðurstöðum í formi lausna, verðmætasköpunar og aukinnar samkeppnishæfni.