Ívar Þorsteinsson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra tekju- og viðskiptaþróunar hjá Reon en hann hefur síðustu ár gegnt stöðu forstöðumanns viðskiptaþróunar hjá Reon.

Þar áður starfaði Ívar sem sölustjóri hjá Opnum Kerfum og sem sölu- og markaðsstjóri Kolibri.

Ívar er með B.Sc. í viðskiptafræði og stundaði meistaranám í Háskóla Íslands í nýsköpun og viðskiptaþróun.

„Við erum gríðarlega spennt að fá Ívar í þetta hlutverk. Ívar hefur verið í burðarhlutverki hjá Reon síðan hann hóf störf 2021. Með reynslu sinni í viðskiptaþróun, sölu og markaðsmálum er Ívar í kjörstöðu til að leiða þessa vegferð og styrkja Reon enn frekar á bæði innlendum og erlendum markaði,” segir Rósa Dögg Ægisdóttir, framkvæmdastjóri Reon.

Í nýju hlutverki sínu mun Ívar leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu tekjusviða Reon ásamt því að fylgja úr vör ýmsum nýsköpunarverkefnum sem félagið hefur sett af stað undanfarin ár. Þá mun Ívar einnig leiða ný verkefni sem eru í farvatninu.

„Það er mjög ánægjulegt að vera treyst fyrir þessari vegferð. Ég hlakka mikið til að taka við þessu spennandi og krefjandi hlutverki og halda áfram að vinna með okkar öfluga teymi að uppbyggingu Reon,” segir Ívar.