Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur látið af störfum sem forstjóri hjá fyrirtækinu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Dr. Unnur Þorsteinsdóttir og Patrick Sulem munu saman leiða starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi, en þau hafa bæði starfað hjá fyrirtækinu um langt árabil.

Jay Bradner, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Amgen, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Kári hafi gengt lykilhlutverki við að festa Íslenska erfðagreiningu í sessi sem leiðandi fyrirtæki og rannsóknarstofnun á sviði erfðafræða.

„Við erum full þakklætis fyrir framlag Kára og við erum ákveðin í að þróa Ísland áfram sem lykilstað fyrir erfðafræðirannsóknir í lækningaskyni. Við munum halda áfram á þeirri leið sem starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar hefur markað og þeim árangri sem náðst hefur.”

Unnur Þorsteinsdóttir hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000 en hún starfaði sem framkvæmdastjóri erfðarannsókna hjá fyrirtækinu. Hún er prófessor við læknadeild og starfaði sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 2022- 2024.

Unnur er sögð talin einn fremsti erfðafræðingur heims, brautryðjandi meðal kvenna í vísindum á heimsvísu, en hún var valin áhrifamesta vísindakona Evrópu af Research.com árið 2023.

„Frá því ég kom til Íslenskrar erfðagreiningar eftir nám við Háskólann í British Columbia fyrir 25 árum, hafa það verið sannkölluð forréttindi að taka þátt í rannsóknum sem komu Íslandi á kortið í erfðafræði mannsins,“ segir dr. Unnur Þorsteinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Ég finn til mikillar ábyrgðar á degi hverjum því það er skylda okkar að tryggja að vísindalegar uppgvötanir okkar stuðli áfram að bættum lífsgæðum og að við getum stutt dyggilega við bakið á íslensku vísindasamfélagi til framtíðar. Við eigum enn langt í land með að skilja til fulls undur erfðavísindanna og ég er jafn innblásin í dag og ég var fyrsta daginn minn hjá Íslenskri erfðagreiningu.“

Unnur Þorsteinsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Patrick Sulem er læknir (M.D.) og hefur hann starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2002. Áður en hann tók við stöðu framkvæmdastjóra leiddi hann klínísk raðgreiningarverkefni (Clinical Sequencing) hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann er sérhæfður í faraldsfræði og lýðheilsu og hefur hann verið þátttakandi í viðamiklum erfðafræðirannsóknum ólíkra sjúkdóma í gegnum störf sín hjá fyrirtækinu.

„Þegar ég horfi til framtíðar er ég sannfærður um mikilvægi erfðafræðirannsókna fyrir framþróun læknavísinda. Ég er staðráðinn í að efla það hlutverk okkar hjá Íslenskri erfðagreiningu að nýta erfðafræði á þann hátt að hún auki ekki aðeins vísindalegan skilning heldur skili einnig raunverulegum ávinningi fyrir sjúklinga“, segir Patrik Sulem, nýr framkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Ég hlakka til að vinna með Unni og okkar frábæra teymi sem áfram mun takast á við það mikilvæga verkefni að umbreyta læknisfræðinni með erfðafræðirannsóknum.“

Patrick Sulem
© Aðsend mynd (AÐSEND)