Klara Arnalds er gengin til liðs við nýsköpunarfyrirtækið Avo þar sem hún mun gegna stöðu hönnuðar. Hún á að baki sér 10 ára feril sem hönnuður, meðal annars hjá Hugsmiðjunni og TVIST, og hefur komið að fjölmörgum vel heppnuðum markaðs- og vefverkefnum. Hún útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2012 sem grafískur hönnuður. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Avo er gagnastjórnunarlausn fyrir gögn um notendaupplifun. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 af þeim Sölva Logasyni og Stefaníu Bjarney Ólafsdóttur, sem stýrðu áður gagnagreind hjá Plain Vanilla Games við gerð leikjarins QuizUp. Á meðal viðskiptavina Avo eru Adobe, Delivery Hero, Fender, Patreon og Rappi, sem öll hafa sparað tugi milljóna á ári með því að innleiða Avo.
Avo er fjarvinnufyrirtæki og er með starfsfólk út um allan heim, í Reykjavík, San Fransisco, Moskvu og víðar. Klara er tíundi starfsmaður fyrirtækisins, sem hefur verið áberandi á undanförnu ári, en fyrirtækið réði til sín fjóra starfsmenn á nýliðnu ári. Fyrirtækið fer ört vaxandi, en fyrirtækið hyggst bæta við sig fólki á sviði markaðssetningar, viðskiptavinavelgengni og vöruþróunar á árinu.
Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Avo:
„Klara er frábær viðbót við Avo teymið og stórkostlegt að fá hana til liðs við okkur. Að vinna með góðum hönnuði er töfrum líkast og Klara kemur nú þegar svo ótrúlega sterk inn. Hún er strax farin að hafa áhrif á stefnu fyrirtækisins og sýna hvað í henni býr mikill skapandi slagkraftur.“