Kristín Soffía Jónsdóttir og Hlöðver Þór Árnason hafa gengið til liðs við Leitar Capital Partners sem svokallaðir leitarar. Undir hatti Leitar munu Kristín Soffía og Hlöðver stýra eigin leitarsjóðum, annars vegar Hringur Capital ehf. og hins vegar Seek ehf.
Leitar Capital Partners leggur áherslu á að fjárfesta í ungu fólki og aðstoða það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Við kaupin tekur leitarinn við sem framkvæmdastjóri og stýrir fyrirtækinu í gegnum vöxt og umbreytingu þangað til fyrirtækið er selt aftur.
Kristín Soffía starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Klak Innovi þar sem hún leiddi endurmörkun félagsins og stofnaði mentoraþjónustu Klak. Hún situr í stjórn Orkusölunnar og hefur áður setið í stjórn Strætó, Þróunarfélags Grundartanga og Faxaflóahafna, þar sem hún var stjórnarformaður um árabil.
„Ég hafði aldrei heyrt um leitarsjóði þegar ég sá fréttina frá Leitar Capital Partners síðasta sumar en ég vissi strax að þetta væri það sem að ég vildi gera. Ég er þakklát fyrir þetta tækifæri og stefni á að ná árangri,“ segir Kristín.
Hlöðver Þór kemur frá Kviku banka þar sem hann starfaði síðast sem forstöðumaður upplýsingatæknisviðs. Þar byggði hann upp teymi sem kerfislega samþætti rekstur Kviku við Aur, Netgíró, TM og Lykil ásamt því að koma að uppbyggingu á innlánsreikningum Auðar. Hlöðver er reynslumikill stjórnandi og hefur tekið þátt í stofnun tveggja nýsköpunarfyrirtækja og unnið að vöruþróun þekktra lausna hérlendis.
„Tækni hefur alltaf heillað mig og þá sérstaklega möguleikarnir til að nýta hana til að leysa flókin vandamál á einfaldan hátt. Það er mikilvægt fyrir mig að vera alltaf að læra eitthvað nýtt og vinna með fólki með sams konar áhuga. Nýsköpun er sérstakt áhugamál hjá mér og ég reyni að nýta hana í sem flestum verkefnum til að vera opinn fyrir nýjum leiðum og hugsa út fyrir kassann,“ segir Hlöðver.
Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital Partners, býður Kristínu Soffíu og Hlöðver Þór velkomin í Leitar fjölskylduna og óskar þeim til hamingju með stofnun leitarsjóðanna sinna.
„Framundan hjá þeim eru krefjandi en einstaklega skemmtilegir mánuðir þar sem þau munu skoða og greina fyrirtæki og kynnast eigendum og stjórnendum þeirra. Markmiðið er að kaupa og taka við góðu og áhugaverðu fyrirtæki. Við hjá Leitar Capital Partners hlökkum til að styðja þau í sinni vegferð frá upphafi til enda í gegnum reynslu og þekkingu okkar á farsælum rekstri og kaupum á fyrirtækjum. Við munum leggja allt kapp á að þau nái markmiðum sínum,” segir Einar.