Kristján Einarsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri tæknifyrirtækisins Treble Technologies sem þróar hugbúnað á sviði hljóðhermunar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Treble Technologies er íslenskt sprotafyrirtæki sem lauk nýverið 232 milljón króna fjármögnun en fyrirtækið þróar hugbúnaðarlausnir fyrir ýmsa geira til að greina og hanna hljóðvist og hljóðupplifanir. Fyrirtækið er í samstarfi við stór alþjóðleg fyrirtæki í byggingariðnaðinum, hljóðtækniiðnaðinum, bílaiðnaðinum og heyrnartækjageiranum.

Kristján starfaði áður sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Origo. Þar sá hann um markaðsaðgerðir og viðburði og leiddi nú síðast innleiðingu á CRM kerfinu HubSpot fyrir Origo. Kristján starfaði í markaðsmálum hjá Origo í 5 ár og spilaði meðal annars lykilhlutverk í mótun á vörumerkinu Origo þegar Nýherji sameinaðist við dótturfyrirtæki sín Applicon og TM Software.

Finnur Pind framkvæmdarstjóri Treble:

„Framundan eru mörg tækifæri fyrir Treble, þar sem tæknin okkar nýtist við lausn fjölbreyttra vandamála sem snúa að hljóði og því mikilvægt fyrir okkur að fá réttan aðila í að stýra markaðsmálum hjá okkur og koma vörum okkar á kortið.“

Kristján Einarsson, nýr markaðsstjóri Treble:

„Það er skemmtilegt að koma inn í fyrirtæki sem er hreinlega brautryðjandi á sínu sviði á heimsvísu. Það fer ekki á milli mála að það er mikill áhugi frá markaðnum á því sem Treble er að gera og fjölmörg tækifæri í boði.“