Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar sem fer fram á landsfundi flokksins á föstudaginn næsta, 28. október. Fresturinn til að skila inn framboði rann út í hádeginu. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Samfylkingarinnar.
Í lögum Samfylkingarinnar segir að kjósa skuli formann á reglulegum landsfundi annað hvert ár og að kosning skuli fara fram þó að aðeins sé eitt framboð.
Logi Einarsson, sem hefur verið formaður Samfylkingarinnar í sex ár, tilkynnti í sumar að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs.
Kristrún tilkynnti á opnum fundi í Iðnó þann 19. ágúst að hún hygðist bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Kristrún var oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður til alþingiskosninga haustið 2021 og tók sæti á Alþingi að kosningum loknum.
Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ætlar að bjóða sig fram til embættis varaformanns. Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, sækist ekki eftir endurkjöri.