Birgir Örn Arnarson mun taka við sem yfirmaður talnagreiningar innan Kviku banka í ágúst næstkomandi. Starfið, sem er nýtt innan bankans, felst í að greina gögn frá fyrirtækjunum innan samstæðunnar, þar á meðal Aur, Netgíró, Lykli og TM, og búa til gervigreindarlíkön sem hægt verður að nýta m.a. við vöruþróun og lánshæfismat. Birgir flytur nú heim til Íslands eftir tíu ára búsetu erlendis.
„Þetta hefur átt sér nokkurn aðdraganda, en fjölskyldan flutti heim fyrir þremur árum. Það stóð aldrei til að vera svona lengi úti en þetta æxlaðist svona. Stefnan hefur verið að flytja til baka og þetta var bara fínn tímapunktur.“
Birgir hefur starfað hjá PayPal í Lúxemborg síðastliðin sjö ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og greiningar í fjárstýringu. Hann byrjaði í áhættustýringunni en þróaðist smátt og smátt einnig yfir í lausafjárstýringu fyrir samstæðuna.
„Ég bý til líkön sem spá fyrir um umsvif og hegðun viðskiptavina, þ.e. hvenær þeir leggja inn og taka út af reikningum. Við reynum að spá fyrir um hversu mikið lausafé er í hverju dótturfélagi á hverjum tíma en PayPal er flókið fyrirtæki með mörg dótturfélög undir regnhlífinni. Það þarf reglulega að færa peninga á milli staða til þess að passa að dótturfélögin uppfylli skilyrði um lausafjár- og eiginfjárhlutföll.“
Árin 2011-2014 bjó Birgir í Zug í Sviss er hann starfaði hjá Zurich Insurance Group, fimmta stærsta tryggingafélagi heims, með um 240 milljarða dollara í stýringu. Þar vann hann innan fjárfestingarteymisins að greina markaðsáhættu.
„Ég sá um að áhættan væri ekki bara innan skynsamlegra marka heldur líka á réttu róli. Það kom stundum fyrir að áhættan var metin of lítil, en það þótti jafn óæskilegt og að taka of mikla áhættu. Hugsunin í fjárfestingum var sú að ávöxtun fengist aðeins með því að taka áhættu, sérstaklega ef eignasafnið væri dreift.“
Birgir er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Fyrir rúmum tíu árum var hann lektor við Háskólann í Reykjavík í fjármálaverkfræði.
Birgir er giftur Kristjönu Baldursdóttur matvælafræðingi, en hún er í doktorsnámi í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands. Þau eiga tvær dætur, 22 og 17 ára. Í frítíma sínum fylgist Birgir með knattspyrnu en hann er mikill Liverpool-maður, auk þess sem hann les mikið af bókum og finnst gaman að ferðast um heiminn.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .