María Björk Einarsdóttir hefur sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags en hún hefur gegnt stöðunni frá árinu 2014. Ingólfur Árni Gunnarsson, sem hefur leyst af Maríu Björk síðustu mánuði eftir að hún fór í fæðingarorlof, hefur verið ráðinn ótímabundið.
„Stjórn Ölmu íbúðafélags hf. þakkar Maríu Björk góð störf fyrir félagið á undanförnum árum og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi,“ segir í tilkynningu félagsins .
Eignarhaldsfélagið Langisjór, móðurfélag fjárfestingafélagsins Brimgarða, keypti Ölmu fyrir 11 milljarða króna í lok febrúar síðastliðnum. Í lok apríl var tilkynnt um að Alma myndi kaupa Brimgarða af Langasjó og samhliða því yrði hlutafé Ölmu hækkað um tvo milljarða króna að raunvirði.
Langisjór ehf. er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Ingólfur Árni, nýráðinn framkvæmdastjóri Ölmu, er sonur Gunnars Þórs sem er stjórnarformaður félagsins.